„Höfum til klukkan níu og þá þarf að farga“

Enn eru hundruð skammta eftir af bóluefni Pfizer. Þeim þarf …
Enn eru hundruð skammta eftir af bóluefni Pfizer. Þeim þarf að farga fari þeir ekki út fyrir klukkan níu í kvöld. AFP

Enn eru nokkur hundruð skammtar eftir af Pfizer-bóluefninu og geta allir sem fæddir eru 2005 eða fyrr komið niður í Laugardalshöll þar til klukkan níu í kvöld.

„Við höfum til klukkan níu í kvöld og þá þarf að farga skömmtunum, við stefnum því bara á að vera hér þar til birgðir klárast og hvetjum fólk til þess að mæta.“ Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í samtali við mbl.is.

„Svo bara hvarf röðin“

„Við héldum að það yrði miklu meiri örtröð og við fórum að hafa áhyggjur af því að við gætum jafnvel ekki náð að anna eftirspurn,“ segir Ragnheiður.

En röð fyrir þá sem ekki fengu boð byrjaði að myndast um hádegi og sökum þess var tekin ákvörðun um að blanda alla skammtana.

„Svo bara hvarf röðin og nú sitjum við uppi með restina.“

„Við höfum til klukkan níu í kvöld og þá þarf …
„Við höfum til klukkan níu í kvöld og þá þarf að farga skömmtunum, við stefnum því bara á að vera hér þar til birgðir klárast og hvetjum fólk til þess að mæta.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Markaðurinn orðinn mettaður

Tilfinning Ragnheiðar og samstarfsfólks hennar er sú að markaðurinn sé orðinn mettaður.

„Við vorum með Janssen í gær og enginn mætti, svo Pfizer í dag og ekki næg mæting. Okkar tilfinning er að markaðurinn sé orðinn mettaður.“

Tæplega 10 þúsund manns fengu bólusetningu í dag með Pfizer og þar af voru um 2.000 manns sem voru ekki boðaðir fyrirfram. Í gær voru 1.600 manns bólusettir með Janssen sem ekki voru boðaðir og því aðeins fleiri í dag en í gær.

Spurð hvort meiri áhugi sé hjá fólki að fá Pfizer fremur en Janssen segir Ragnheiður:

„Já það virtist meiri áhugi í dag á þessum aukaskömmtum, en ekki nægur.“

Ragnheiður segir verkefni næstu þriggja vikna vera endasprettinn í seinni bólusetningum með Pfizer auk þess sem minni hópar verði boðaðir í Janssen eftir tilvikum.

Tæplega 10 þúsund manns fengu bólusetningu í dag með Pfizer …
Tæplega 10 þúsund manns fengu bólusetningu í dag með Pfizer og þar af voru um 2.000 manns sem voru ekki boðaðir fyrirfram. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert