Lögregluforlagið með tekjur upp á 25 milljónir

Óskar Bjartmarz, framkvæmdastjóri Lögregluforlagsins.
Óskar Bjartmarz, framkvæmdastjóri Lögregluforlagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Auglýsing sem birtist í Morgunblaðinu þann 17. júní hefur vakið talsverð viðbrögð í samfélaginu, meðal annars fyrir að leggja nafn Rauða krossins í leyfisleysi við skilaboð sem samtökin segja valda hræðslu frekar en að ýta undir forvarnir, hvað varðar neyslu kannabisefna.

Íslenska lögregluforlagið, í samvinnu við Félag íslenskra fíkniefnalögreglumanna (FÍFL), er skrifað fyrir auglýsingunni, og reikningurinn sem sendur var fyrirtækjum fyrir að taka þátt var í nafni Lögregluforlagsins.

Sama auglýsing hefur birst á hverju ári en ekki vakið sömu viðbrögð og nú. Skýrist það væntanlega af því að afglæpavæðing neysluskammta kannabis hefur verið umdeilt stjórnmálalegt viðfangsefni á þessu ári og því mikið í umræðunni.

Fyrirtækin og sveitarfélögin sem birtust undir auglýsingunni sem styrktaraðilar verkefnisins sögðust nokkur ekki hafa veitt leyfi fyrir því, þó flest hafi gert það á þeim forsendum að styðja við forvarnarstarf FÍFL.

Auglýsingin sem um ræðir.
Auglýsingin sem um ræðir.

Lögregluforlagið og FÍFL skipta með sér hagnaðinum

Þau sem tóku þátt í verkefninu fengu aftur á móti ekki öll upp gefið sama verð en samkvæmt heimildum mbl.is greiddu þau á bilinu 20 þúsund til 70 þúsund íslenskra króna fyrir þátttökuna.

Í Lögregluforlaginu starfar ásamt stjórnarmönnum, sölumanneskja sem sér um samskipti við fyrirtæki, bókari og svo ráða þeir einnig lausafólk. 

Óskar Bjartmarz er framkvæmdastjóri Lögregluforlagsins sem sá um verkefnið fyrir hönd FÍFL. Hann segir að verðin hafi tekið mið af fyrri styrkjum fyrirtækjanna, sem skýri verðmuninn.

Óskar segir að heilsíðan hjá Morgunblaðinu sé fengin á hagstæðari kjörum enda um að ræða forvarnarauglýsingu sem hafi verið í blaðinu á hverjum þjóðhátíðardegi í áratugi. Verkefnið skili því hagnaði sem sé svo skipt milli FÍFL og forlagsins eftir samkomulagi. 

Það vekur hins vegar athygli að FÍFL var stofnað sem félagasamtök fyrir deild sem er ekki lengur til. Um er að ræða félagasamtök fíkniefnadeildar lögreglunnar en hún var lögð var niður árið 2016. Óskar segist ekki hafa vitað betur en að félagið starfaði enn með sama hætti og áður.

Ekki hefur enn náðst í forsvarsmenn félagsins.

Merki FÍFL, sem var stofnað sem félagasamtök fyrir deild sem …
Merki FÍFL, sem var stofnað sem félagasamtök fyrir deild sem er ekki lengur til.

Eignarhald Lögregluforlagsins

Lögregluforlagið, sem tekur við greiðslum frá fyrirtækjunum, er alfarið í eigu erlends félags sem ber heitið Nordisk Kriminalkrönike Aps.

Conrad A. Fabritius Tengnagel er danskur lögfræðingur og stjórnarformaður Lögregluforlagsins. Nordisk Kriminalkrönike Aps er í eigu sjóðs sem faðir Tengnagel stofnaði. Sá maður hét Lars Eric og hagnaðist hann á því að gefa út sakamálasögur í samvinnu við lögregluna en hann var jafnframt mikill íþróttaáhugamaður.

Þessi sjóður hefur haft það hlutverk að reka forlög, á borð við íslenska Lögregluforlagið, víðs vegar á Norðurlöndunum og styrkja með ágóðanum íþróttasambönd lögreglumanna. Starfsemi allra forlaganna hefur þó verið lögð niður nema á Íslandi en sjóðurinn hefur ekki áhuga á að halda starfseminni áfram hér.

Hagnaður ekki tekinn út af eigendum

Óskar segir að í upphafi hafi félagið verið rekið með tapi og þá hafi móðurfélagið, Nordisk Kriminalkrönike Aps, orðið að borga mikið með því. Síðustu ár hafi svo gengið aðeins betur þannig að dálítill hagnaður sitji eftir. Hann leggur áherslu á að sá hagnaður hafi runnið til íþróttasambands lögreglumanna en ekki verið tekinn út úr félaginu af eigendum þess.

Óskar og Guðmundur Stefán Sigmundsson, sem er jafnframt stjórnamaður í félaginu, hafa í hyggju að kaupa það til þess að halda starfseminni gangandi og styðja áfram við Íþróttasamband lögreglumanna hér á landi. Óskar er einmitt stjórnarformaður þar og hefur mikla ástríðu fyrir íþróttum lögreglumanna.

Samkvæmt ársreikningi Lögregluforlagsins voru rekstrartekjur þess rúmar 25 milljónir íslenskra króna á síðasta ári en hagnaður þess 581.010 krónur.

Óskar segir að þetta séu allt tekjur sem komnar séu til vegna verkefna félagsins fyrir Landssamband slökkviliðsmanna, björgunarsveitina í Hafnarfirði, Íþróttasamband lögreglumanna og FÍFL.

Verkefnin sem forlagið taki að sér snúi helst að því að senda út reikninga, sjá um kostnað og afföll og safna styrkjum fyrir þessi félög. Óskar bendir á að það séu til fleiri fyrirtæki sem bjóða upp á sambærilega þjónustu. 

„Það er ekki gott að lögreglumenn nálgist þessi fyrirtæki sjálfir.“

Endurskoða styrkveitingar

Einhver þau fyrirtæki sem gengust við styrktarbeiðni frá Lögregluforlaginu töldu sig vera í samskiptum við deild sem heyrði undir lögregluna eða Landssamband lögreglumanna.

Í tölvupóstum sem Lögregluforlagið hefur sent frá sér í gegnum tíðina hefur ekki komið skýrt fram að um millilið sé að ræða.

Íþróttafélagið Mjölnir er meðal þeirra sem ekki eru sátt við þessa misvísandi aðferðarfræði styrköflunar. Segir forsvarsmaður þess í samtali við mbl.is að þetta verði til þess að þeir þyrftu að endurskoða styrkveitingarkerfi sitt.

mbl.is