Appelsínugular viðvaranir – ekkert ferðaveður

Þrjár appelsínugular viðvaranir og þrjá gular eru í gildi hjá …
Þrjár appelsínugular viðvaranir og þrjá gular eru í gildi hjá Veðurstofunni vegna hvassviðris næsta rúma sólarhringinn. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir vegna hvassviðris fyrir Breiðafjörð, Norðurland eystra, Strandir og Norðurland vestra. 

Fyrsta appelsínugula viðvörunin tekur gildi klukkan 13 á morgun, föstudag. Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að búast megi við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, allt að 40 m/s. 

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur varar við hvassviðri á morgun um norðvestanvert landið og norðanlands. Einkum eftir hádegi, en á norðanverðu Snæfellsnesi í fyrramálið. Hviður geta náð allt að 30-35 m/s, ekki síst í Eyjafirði skammt norðan Akureyrar. Einnig verður mikið misvindi við Kvísker í Öræfum.

„Festið trampólín og takið inn garðhúsgögn“

Ekkert ferðaveður verður fyrir ferðahýsi eða húsbíla og segir í ábendingu frá Veðurstofunni að einnig geti verið mjög erfitt að vera í tjaldi í slíkum vindi. Mikilvægt er að göngufólk geti leitað skjóls í húsum. Þá er varað við því að lausamunir geti fokið, og mikilvægt er að festa niður eða taka inn trampólín og garðhúsgögn. 

Á morgun verða einnig gular viðvaranir í gildi á Vestfjörðum, Suðausturlandi og miðhálendinu.


mbl.is