Gengu yfir hálendið fyrir langveik börn og loftslagið

Göngugarparnir daginn sem þeir komu röltandi í bæinn frá Vík …
Göngugarparnir daginn sem þeir komu röltandi í bæinn frá Vík í Mýrdal eftir að hafa þar áður gengið þvert yfir hálendi Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frakkarnir Thierry Danzin og Andy Chiarelli fóru frá nyrstu byggð meginlands Íslands til þeirrar syðstu á tveimur vikum. Þetta gerðu þeir fótgangandi og aleinir án hjálpar til þess að vekja athygli á loftslagsbreytingum og til þess að safna fé til styrktar börnum með cystic fibrosis eða slímseigjusjúkdóm.

„Við lentum í Keflavík og lögðum strax af stað norður,“ segir Thierry Danzin en hann og Andy Chiarelli mynda franska teymið Hop'Adventure. Þeir voru léttir í lund þegar blaðamaður hitti þá aðeins nokkrum klukkustundum eftir komu þeirra til byggða.

Lítil hætta á að verða bensínlaus

Þann 1. júní lögðu þeir af stað frá Keflavík til Rifstanga en merkilegt nokk þá hoppuðu þeir ekki í flugrútuna eða leigðu sér bílaleigubíl, líkt og margir sem koma hingað til lands, heldur fóru þeir fótgangandi. Næstu fimm daga gengu þeir ýmist eða hlupu 600 kílómetra norður eftir hinum ýmsu göngustígum á hálendinu en síðustu 200 kílómetrana tóku þeir þó rútu. 

„Við tókum rútu því fluginu okkar var frestað og við þurftum að vera mættir á Rifstanga 3. júní,“ segir Thierry. Þá hófst áskorunin þeirra eða ævintýrið öllu heldur. Við tók 950 kílómetra leið sem samanstóð af fjöllum, jöklum, ám, snjó og köldum nóttum. 

Hér má sjá göngugarpana þreytta en þó hressa eftir göngu …
Hér má sjá göngugarpana þreytta en þó hressa eftir göngu í djúpum snjó en fyrir aftan þá glittir í dekkin þakin snjó. Ljósmynd/Aðsend

Það má segja að fyrstu 24 klukkustundir ferðarinnar hafi ekki verið þær þægilegustu en þá drukku þeir ekkert vatn. „Það var engin úrkoma og alveg þurrt. Við vorum með nokkra brúsa en ekkert vatn,“ segir Thierry en allar lækjarsprænur fyrstu 25 kílómetrana voru uppþornaðar eftir mikið þurrkatímabil í maí.

Nóttin hvíta

Þeir sem lagt hafa leið sína upp á hálendi Íslands vita vel að ekki er um að ræða neitt Reykjavíkurmaraþon eða þægilega stíga um sléttlendi heldur hlykkjast þeir oftar en ekki meðfram og yfir fjöll. Þá getur kuldinn uppi á fjöllum orðið gríðarlegur þrátt fyrir sumaryl í bænum. Á leið sinni frá Landmannalaugum í Hólaskjól þurftu þeir að sleppa því að sofa vegna hættu á að verða hreinlega úti.

Mikill snjór í skeggi Thierrys Danzins þrátt fyrir sumaryl í …
Mikill snjór í skeggi Thierrys Danzins þrátt fyrir sumaryl í bænum. Ljósmynd/Aðsend

„Það var 15 gráðu frost og við vildum ekki stoppa vegna kulda, við þurftum að halda okkur á hreyfingu,“ segir Thierry. Þeir héldu því áfram að ganga og gerðu það í alls 27 tíma. „Það var mjög erfitt vegna þess að mikill snjór og ís fór í dekkin á vögnunum okkar og gerði okkur erfiðara fyrir. Við gátum ekki stoppað og hætt, við vorum að þessu fyrir börnin,“ segir hann og bætir við að snjórinn hafi á tímabili verið mittisdjúpur en þeir þurftu á „nóttinni hvítu“, eins og þeir kalla hana, að fara meðal annars yfir Hrafntinnusker. Þá bjuggust þeir ekki við að það yrði mjög heitt hér á Íslandi en þó ekki svo kalt heldur og er Thierry er nýfarinn að finna fyrir stóru tánni sinni aftur.

Hér má sjá brot af matnum sem þeir tóku með …
Hér má sjá brot af matnum sem þeir tóku með sér en á erfiðustu dögunum átu þeir 8.000 hitaeiningar af þurrmat. Ljósmynd/Aðsend

„Við hittum nokkra Íslendinga við Mývatn og hittum þá síðan aftur í Landmannalaugum og loks í þriðja skipti í Vík. Þau fóru aðra leið á jeppa og við auðvitað fótgangandi en þeim brá í brún þegar þau sáu okkur því þau héldu að við yrðum miklu lengur á ferðinni,“ segja þeir en þeir hlupu um fimmtung leiðarinnar. Spurðir út í matarmál þeirra garpanna sögðust þeir hafa brennt um tíu þúsund hitaeiningum á erfiðustu dögunum og þá borðað um átta þúsund hitaeiningar af þurrmat.

Feðradeginum fögnuðu þeir með íslenskri pylsu á Selfossi á leið …
Feðradeginum fögnuðu þeir með íslenskri pylsu á Selfossi á leið sinni fótgangandi frá Vík í Mýrdal til Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Eftir tvær vikur á hálendinu komu þeir loksins í Vík í Mýrdal, syðstu byggð á meginlandi Íslands. Þá þurfti hins vegar að koma sér í bæinn, Kársnesið í Kópavogi öllu heldur, og það gerðu þeir fótgangandi en þar býr vinkona þeirra, Anne-Charlotte Fasquel, ásamt manni sínum og börnum en hún var þeim stoð og stytta frá því þeir komu til landsins.

Fjöldi franskra barna teiknaði myndir af þeim og sendi þeim …
Fjöldi franskra barna teiknaði myndir af þeim og sendi þeim á feðradaginn. Ljósmynd/Aðsend
„Við vild­um taka okk­ar and­ar­drætti fyr­ir þau sem eiga erfitt …
„Við vild­um taka okk­ar and­ar­drætti fyr­ir þau sem eiga erfitt með það og safna fyr­ir þau,“ segja þeir en nú hafa þeir safnað rúm­lega 4.300 evr­um fyrir frönsku sam­tökin „Vaincre la mucoviscidose“ eða „Sigr­um slíms­eigju­sjúk­dóm­inn“. Ljósmynd/Aðsend

Undirbúningur hófst í haust

Félagarnir byrjuðu að undirbúa ferðina í nóvember 2020 en Andy er kvæntur frænku Thierry. Þrátt fyrir tengslin þekktust þeir þó ekki mikið fyrir, þar sem Andy býr í Norður-Frakklandi og Thierryí suðausturhluta landsins við landamæri Spánar. Andy var atvinnumaður í fótbolta og Danzin vinnur í skóla og er göngugarpur sem hefur meðal annars gengið í ítölsku Ölpunum og Pýreneafjöllum og eitt sinn suður allt Frakkland á 10 dögum.

Loftslagsbreytingar og langveik börn

„Við viljum gera mynd sem útskýrir hvernig loftslagsbreytingar hafa áhrif á jökla Íslands,“ útskýra þeir en þeir komu við hjá Vatnajökli á leið sinni suður og ætla að gera heimildarmynd um ferðina, en Vatnajökull hefur minnkað um meira en þúsund ferkílómetra síðustu rúma öldina og gæti horfið alfarið með áframhaldandi hlýnun.

Þar að auki gengu þeir, líkt og áður sagði, fyrir langveik börn. „Við fórum í þessa ferð fyrir litla stúlku sem greindist með slímseigjusjúkdóm stuttu eftir fæðingu. Læknar sögðu að hún yrði ekki eldri en fimm ára en nú er hún ellefu ára gömul og gefst ekki upp,“ segir Thierry en hann þekkir foreldra stúlkunnar. „Við vildum taka okkar andardrætti fyrir þau sem eiga erfitt með það og safna fyrir þau,“ segja þeir en nú hafa þeir safnað rúmlega 4.300 evrum til frönsku samtakanna „Vaincre la mucoviscidose“ eða „Sigrum slímseigjusjúkdóminn“.

Enn er hægt að heita á þá á vefsíðu samtakanna. Samtökin hérlendis nefnast Andartak en Anne og maður hennar eru meðal stofnmeðlima.

Nánar er hægt að skoða þá kappa til dæmis myndir og myndskeið frá þeim á facebooksíðu þeirra hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert