Hefja leit að John Snorra og Ali Sadpara

John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali.
John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali.

Sonur fjallgöngumannsins Alis Sadpara, Sajid Ali, mun brátt hefja leit að föður sínum auk þeirra Juans Pablos Mohrs og Johns Snorra Sigurjónssonar, sem fórust í fjallshlíðum K2 í febrúar.

Frá þessu greindi Elia Saikaly kvikmyndagerðarmaður, sem einnig var hluti af gönguhópnum í febrúar, á samfélagsmiðlum í dag.

Sajid Ali Sadpara hafði áður tilkynnt að hann hygðist leita föður síns og félaga hans í sumar. Ali var í gönguhópi með John Snorra og föður sínum þegar komið var að svokölluðum Flöskuhálsi á leið upp þetta næsthæsta fjall heims.

Ferðin snúist um tryggð og vináttu

„Þetta er leiðangur okkar til að finna svör. Þetta snýst um heiður, tryggð og vináttu. Þetta er fyrir Sajid. Þetta er fyrir Ali. Þetta er fyrir John. Og þetta er fyrir Pakistan,“ skrifar Elia Saikaly í færslu á facebooksíðu sinni.

Þar greinir hann frá því að þeir Sajid séu komnir til Pakistans til að leita að líkunum. „Þetta voru vinir okkar og liðsfélagar,“ skrifar Saikaly. Hann segir frá því að hann hafi átt að vera með þeim nóttina sem þeir hurfu en sé líklegast á lífi vegna þess að hann þurfti frá að hverfa vegna bilunar í súrefnisbúnaði. 

Fram kemur í færslunni að fjórir göngumenn muni aðstoða hann og Ali við leitina.

Færslu Saikaly má lesa í heild sinni hér.

mbl.is