Héldu hátíð í kringum fimmtugasta rampinn

Reistir hafa verið fimmtíu rampar í tengslum við verkefnið Römpum upp Reykjavík. Fimmtugasti rampurinn var vígður í dag við verslun Yeoman og var götuhátíð haldin þar fyrir utan í tilefni árangurs verkefnisins. 

„Ég gæti ekki verið glaðari með þennan ramp og er einkar stolt að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni,“ er haft eftir Hildi Yeoman, stofnanda Yeoman og fatahönnuði. 

„Auðvitað er það mér í hag að geta tekið á móti sem flestum viðskiptavinum, óháð hreyfihömlun þeirra og að sjálfsögðu réttur þeirra á sama tíma. Svo sakar ekki að rampurinn fellur einkar vel inn í umhverfið líka.“

Eins og kom fram í frétt mbl.is í dag eru ekki nema rúmir tveir mánuðir síðan fyrsti rampurinn var vígður við verslun Kokku á Laugavegi.

Götugleðin var ekki af verri endanum en DJ Dóra Júlía sá um að þeyta skífum á meðan eldgleypar, risar og furðufólk frá Sirkusi Íslands léku listir sínar. Bjarni töframaður sýndi einnig töfrabrögð á meðan börn og unglingar þáðu ókeypis andlitsmálningu, blöðrur og djús.

Verkefnið miðar að því að setja upp 100 rampa fyrir marsmánuð árið 2022. Stofnaður hefur verið sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem mun standa straum af kostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu, í samræmi við forgangsröðun stjórnar sjóðsins.

Með römpunum er öllum gert kleift að sækja veitingastaði og verslanir þáttakenda verkefnisins í Reykjavík. Þá segir í tilkynningu að unnið sé í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvöld en Reykjavíkurborg er stofnaðili að verkefninu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert