Hjólað til að vekja athygli á góðum málefnum

Keppendur ræstir af stað í Egilshöll
Keppendur ræstir af stað í Egilshöll Kristinn Magnússon

Liðakeppni Síminn cyclothon hjólreiðakeppninnar var ræst í gærkvöld. Þrátt fyrir að Síminn sé með formlega áheitasöfnun fyrir Landvernd, umhverfissamtök, þá eru nokkur lið í keppninni sem að eru einnig að vekja athygli á öðrum góðum málefnum. Mbl.is náði tali af fyrirliðum liðanna áður en að keppnin hófst.

Hjóla fyrir samtökin Ljósið

„Mig langaði bara að setja saman lið þar sem ég þyrfti að gera sem minnst,“ segir Auðunn Gunnar Eiríksson, fyrirliði liðsins sem hjólar fyrir Ljósið. Ljósið er er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.

„Ég heyrði að Ljósið vildi taka þátt og þá fannst okkur passa að búa til gott lið sem stefndi á sigur, því sigurvegararnir fá víst alltaf mesta athygli.“ Auðunn lét svo sannarlega verða að því en af átta liðsmönnum hafa fimm þeirra orðið Íslandsmeistarar í hjólreiðum.

Liðið safnar áheitum fyrir Landvernd líkt og önnur lið, en samhliða því vilja þeir með þátttöku sinni vekja athygli á því að ungir karlmenn séu ólíklegri til þess að nýta sér þjónustu Ljóssins. „Markmiðið er að vekja athygli á því að ungir karlmenn eru ekki duglegir að nýta sér það frábæra starf sem Ljósið býður upp á og er það tilgangur verkefnisins, vekja athygli á því að þetta er ekki bara eitthvað prjón.“

Spurður hvert tímamarkmiðið sé svarar Auðunn um hæl, „Ingvar, hvað verðum við lengi að þessu? Já Ingvar Ómars segir 34 tíma og 40 og eitthvað mínútur.“ Ingvar varð Íslandsmeistari í hjólreiðum nýlega þegar að hann tók titilinn af liðsfélaga sínum, Hafsteini Ægi Geirssyni. Því ekki furða að Auðunn skyldi ráðfæra sig áður en hann svaraði.

Fimm fyrrum Íslandsmeistarar hjóla fyrir Ljósið.
Fimm fyrrum Íslandsmeistarar hjóla fyrir Ljósið. Kristinn Magnússon

Riddarar spandexins

„Þeir verða nú bara 42 til 43,“ segir Birgir Fannar Birgisson, fyrirliði Riddara spandexins, léttur er hann var spurður hvernig stemmingin væri fyrir næstu 72 klukkutímunum. „Ég held að þú finnir bara ekki betri stemmingu í borginni heldur en akkúrat núna hjá okkur.“

Riddarar spandexins er hópur reyndra hjólreiðamanna sem hittast allir vikulega og hjóla hring í kringum borgina. Hópurinn myndast í raun út frá Facebook hópnum „Reiðhjólabændur.“ Tæplega 7300 manns eru í hópnum. „Liðið er samsett úr félögum sem hittast vikulega í bændarúntum hjólreiðabænda, en markmið þeirra ferða er að fá fólk til þess að hreyfa sig og taka þátt.“

Þrátt fyrir að Reiðhjólabændur sé Facebook grúppa eru áform um að færa út kvíarnar og hefur nú verið stofnað félag utan um hópinn þar sem fólki verður boðið að greiða árgjald og taka þátt í félaginu. „Við erum búnir að skrá félagið og ætlum að bjóða fólki að greiða árgjald. Félagið stefnir til dæmis að því að koma á laggirnar hjólreiðaskrá, líkt og ökutækjaskrá, sem gerir hjólaþjófum erfiðar fyrir að selja hjólin á svörtum markaði.“ Þá tekur Birgir fram að stefnan sé að þróa félagið í sambærilega átt og FÍB fyrir bifreiðareigendur. „Við erum samt ekki farinn á fullt flug með þetta, við erum enn að forma hugmyndina, svo sem hvaða fríðindi fylgi því að greiða árgjald.“

Spurður hvaðan nafnið „Riddarar spandexins“ kemur og hver átti hugmyndina að því segir Birgir, „Ég held nú að ég hafi stungið upp á þessu í gríni. En nafnið vísar til þeirrar umræðu sem sprettur upp árlega, þar sem fólk í umferðinni bölvar þessu spandex liði í grið og erg.“ Birgir bendir á að spandex búnaðurinn séu ekki bara stælar. „Þetta snýst ekki um að vera „wannabe“ Tour de France gaur, þetta snýst um að líða vel þegar að maður hjólar.“

Riddarar spandexins líta til sólar.
Riddarar spandexins líta til sólar. Ljósmynd/Af facebook síðu liðsins

Hjólakraftur er fyrir alla

Þorvaldur Daníelsson, Reykvíkingur ársins 2020, er sjaldan kallaður annað en Valdi í Hjólakrafti. En hjólakraftur er hjólaklúbbur fyrir krakka á aldrinum tólf til átján ára sem vilja takast á við spennandi áskoranir á reiðhjólum.

„Hjólakraftur er fyrir alla krakka, sjálfur er ég elsti krakkinn í hópnum,“ segir Valdi en mbl.is náði tali af honum þegar að liðið var á leið sinni austur úr Eyjafirði. Hjólakraftur skráði tvö lið til leiks, en þó hjóla liðin sem ein heild og eru með einn sameiginlegan tímaflögubúnað. Liðin frá Hjólakrafti eru með lægsta meðalaldur keppenda. „Yngstu tveir eru 12 ára, svo eru hérna fjórir krakkar sem fæddir eru árið 2003, svo er elsti keppandinn tvítugur.“

Valdi segir meginmarkmið klúbbsins vera að hvetja krakka til virkni fremur en vanvirkni. „Hjólakraftur snýst um að gera, í stað þess að gera ekki.“ Margir halda, og er blaðamaður engin undantekning  þar á, að Hjólakraftur sé svokallað „sértækt úrræði fyrir börn“. Valdi segir það misskilning. „Sumir hafa litið á þetta sem sértækt úrræði, en ég tel að besta leiðin sé bara að blanda öllu saman. Það er leiðin til þess að allir geti notið sín. Enginn er góður í öllu, en allir eru góðir í einhverju.“

Hjólakraftur hefur hingað til snúist eingöngu um að hjóla, en nú eru breytingar í vændum. „Við erum komin í samstarf við Parkour Ísland og Hringleik sirkus, svo er Konni Gotta með stökk námskeið í Bryggjuhverfinu.“ Valdi segir verkefni samfélagsins gagnvart krökkunum vera ærið. „Það hafa ekki allir gaman af fótbolta og handbolta, við verðum bara að vera með allskonar í boði fyrir krakkana.“

Ræsing í einstaklingskeppni og Hjólakraftur leggur af stað
Ræsing í einstaklingskeppni og Hjólakraftur leggur af stað Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert