Joggingbuxur ferðamanna verði að gönguskóm

Hér má sjá jogging-skóna.
Hér má sjá jogging-skóna. Ljósmynd/Íslandsstofa

Í dag hefst ný markaðsherferð á vegum markaðsverkefnisins Ísland – saman í sókn, sem hvetur fólk til að ferðast til Íslands og upplifa þau fjölmörgu ævintýri sem land og þjóð hafa upp á að bjóða. 

Í nýrri herferð fyrir áfangastaðinn Ísland er fólk hvatt til þess að loka tímabili takmarkana með táknrænum hætti og enduruppgötva ævintýraþrána á Íslandi. 

„Fátt hefur verið jafn einkennandi fyrir undanfarið ár og joggingbuxurnar, sem fjöldi fólks hefur notað jafnt heima, sem og í heimavinnu; á fjarfundum og við matarinnkaup í gegnum netið. En nú er komið að því að veita þessum minnisvarða um heimavinnu og samfélagstakmarkanir nýjan tilgang,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu. 

Í júlí verður erlendum ferðamönnum gert kleift að endurvinna joggingbuxurnar sínar, umbreyta þeim í gönguskó og halda á vit ævintýranna á Íslandi. Skórnir verða handgerðir og fáanlegir í takmörkuðu upplagi gegn því að mæta á staðinn og framvísa flugmiða til Íslands og notuðum joggingbuxum. 

Herferðin mun standa í 11 vikur, en megináhersla verður lögð á Bandaríkin, Kanada, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Danmörku og Svíþjóð. 

Ísland – saman í sókn, er verkefni stjórnvalda til að efla íslenska ferðaþjónustu í kjölfar Covid-19. Verkefnið er fjármagnað af íslenska ríkinu en framkvæmd þess er í höndum Íslandsstofu. Markmiðið er að auka spurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina.

mbl.is