Saka talsmenn atvinnurekenda um rangfærslur

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efling sakar talsmenn atvinnurekenda um rangfærslur á greiningu á Covid-kreppunni en verkalýðsfélagið telur ekki rétt að kenna launahækkunum um efnahagssamdrátt og aukið atvinnuleysi í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Í yfirlýsingu frá Eflingu kemur fram að talsmenn atvinnurekenda, annars vegar Samtaka atvinnulífsins og hins vegar Viðskiptaráðs, hafi haldið því fram að hátt launastig á Íslandi, sem meðal annars má rekja til lífskjarasamningsins 2019 til 2021, hafi gert Covid-kreppuna dýpri en ella.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, telur afleiðingar launahækkanna auka …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, telur afleiðingar launahækkanna auka atvinnuleysi. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Vísa talsmenn atvinnurekenda til þess að hærri launakostnaður auki atvinnuleysi, hindri uppsveiflu og auki líkur á verðbólgu. Telja þeir jafnframt að hár launakostnaður hafi nú þegar verið farinn að hafa áhrif á atvinnuleysi fyrir kreppuna.

Hættulegur boðskapur

Í yfirlýsingu Eflingar kemur fram að framangreindar staðhæfingar séu „rangfærslur og raunar hættulegur boðskapur“. Þvert á það sem talsmenn Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs halda fram telur Efling að hærri laun, með tilheyrandi kaupmætti almennings, haldi kreppunni í skefjum. Telur félagið einnig einkaneyslu og fjárfestingu heimila gífurlega mikilvæga liði í mildun kreppuáhrifa og því beri að halda þeim við. Telur það þá sérstaklega mikilvægt að tryggja afkomu láglaunahópa en stærstur hluti tekna þeirra er varið í daglega framfærslu og skilar sér því beint í hringrás efnahagslífsins.

Bendir Efling jafnframt á að spár talsmanna atvinnurekenda um kreppuna og atvinnuleysið hafi verið mun svartsýnni en raun ber vitni og að atvinnuleysið hafi verið hvað verst í ferðaþjónustunni, sem hægt er að rekja nánast beint til samkomu- og ferðatakmarkana vegna veirunnar. Auk þess var stærstur hluti þess láglaunað starfsfólk með minni menntun.

Bætir verkalýðsfélagið við að greiningaraðilar á borð við Seðlabankann, Hagstofu og ASÍ tengi hækkun á verðbólgu frekar við gengisbreytingar, verðlagsþróun erlendis og flæði fjármagns til og frá landinu. Hefur þá lítið samband ríkt milli launahækkana og verðbólgu á síðustu árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert