Fundu fiska inni í skemmu

Hér stóð Tækniminjasafn Austurlands ásamt fleiri húsum sem fóru undir …
Hér stóð Tækniminjasafn Austurlands ásamt fleiri húsum sem fóru undir aurskriðuna stóru þann 18. desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kaflinn sem helgaðist af því að velta fyrir sér eyðileggingunni á Tækniminjasafni Austurlands er að baki, að sögn Zuhaitz Akizu forstöðumanns safnsins. Hann segir frá því í samtali við mbl.is að eftir mikla vinnu við flokkun muna sé komið að því að líta til uppbyggingar.

„Þrjár byggingar undir okkar starfsemi glötuðust. Skipasmíðastöð við sjóinn, sem var stórt hús, renniverkstæðið og vélsmiðjan,“ segir Zuhaitz. Tæknisafnið fór undir stærstu aurskriðuna sem féll á Seyðisfirði, þann 18. desember. 

Í dag, um sex mánuðum síðar, er ekki hægt að sjá mikil merki um að þar hafi staðið safn. Zuhaitz sýndi blaðamanni og ljósmyndara mbl.is svæðið í gær í glampandi sól og logni. 

Zuhaitz Akizu forstöðumaður Tæknisafnsins.
Zuhaitz Akizu forstöðumaður Tæknisafnsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fellur á milli kerfa

„Auk þeirra voru tvær skemmur á höfninni sem skemmdust mikið en urðu ekki beint fyrir aurskriðunni heldur af sjónum sem skall á húsunum eftir að aurskriðan skall á sjónum.

Það myndaðist eins konar smá-flóðbylgja. Við fundum mikinn þara inni í þeim og jafnvel fiska.“

Ein skemman sem varð fyrir flóðbylgjunni.
Ein skemman sem varð fyrir flóðbylgjunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einu ummerki þess að þarna hafi staðið safn er hluti gömlu vélsmiðjunnar sem enn stendur. Hlutinn sem eftir stendur er friðaður en ekki er hægt að byggja við hann vegna nýs hættumats á svæðinu. Zuhaitz segir því gömlu vélsmiðjuna falla á milli kerfa.

„Unnið er að því að finna einhverja lausn fyrir þessa byggingu svo að hún fái að standa áfram með öruggum hætti.“

Flutu ofan á aurnum

Svæðið þar sem safnið stóð fellur undir hættusvæði C, þar sem gildir efsta stig hættu vegna ofanflóða á Seyðisfirði, og verður því ekki hægt að endurbyggja á sama stað. 

Til stendur að færa þau átta hús sem hægt er inn á torfuna í bæinn, sem enn standa inni á hættusvæðinu. Útlit er þá fyrir að eftirstandandi hluti vélsmiðjunnar verði eina húsið á stóru svæði þar sem þriðja og stærsta aurskriðan féll. 

Alls voru fjórtán hús sem altjón varð á og hafa verið rifin eða hreinsuð af svæðinu. í sumum tilfellum var hægt að bjarga og varðveita hluta þeirra þó að húsið þyrfti að rífa. Sem dæmi nefnir Zuhaitz Framhús og Breiðablik, hvort tveggja timburhús sem urðu fyrir skriðu en flutu ofan á aurnum og héldust nokkurn veginn saman.

Höfnin sem skipasmíðastöðin stóð við var heil og í notkun að sögn Zuhaitz. Til stóð að gera við hana í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins Múlaþings árið 2022 og taka á móti seglskipum við hana.

Höfnin sem Tækniminjasafnið stóð við.
Höfnin sem Tækniminjasafnið stóð við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og sjá má á mynd er hún ónýt í dag og ekki stendur til að byggja hana upp að svo stöddu. 

Safnið í fiskikörum

Nokkrum dögum eftir aurskriðurnar tók við mikið verk að safna saman og grafa upp muni úr safninu. „Þetta voru rúmmetrar af rúmmetrum ofan af aur í bland við safnmuni, ljósmyndir, skjöl og alls konar,“ segir Zhuaitz.

Tækniminjasafn Austurlands er nú meira eða minna í geymslu í …
Tækniminjasafn Austurlands er nú meira eða minna í geymslu í fiskikörum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var nánast eins og fornleifauppgröftur, þar sem við þurftum að fara varlega í að grafa upp. Fyrsta ákvörðunin sem var tekin var að koma öllu fyrir í geymslu. Allt var sett í fiskikör og komið fyrir, fyrst í mjölskemmu en síðar í hentugra geymsluhúsnæði.“

Í kjölfarið tók við mikið flokkunarstarf þar sem ákveða þurfti hvað væri algjörlega ónýtt, hvaða munir væru mjög mikilvægir og bera kennsl á muni. 

Mikil vinna hefur farið í að bera kennsl á og …
Mikil vinna hefur farið í að bera kennsl á og meta muni safnsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Núna sex mánuðum síðar getum við sagt að við höfum lokið við neyðarbjörgun á helstu munum sem bjargað verður og getum núna horft fram á veginn.

Við getum farið að hanna sýningar með tilliti til muna sem við höfum, við getum farið að huga að nýju varanlegu húsnæði.“

Þakklát Þjóðminjasafninu 

„Við höfum fengið mjög mikla hjálp frá Þjóðminjasafninu. Við erum þeim mjög þakklát. Þegar við þurftum á að halda voru hópar af sérfræðingum sendir hvort sem það var fyrir viðgerðir, ljósmyndasérfræðinga eða fólk frá Þjóðskjalasafninu til að vinna með skjöl.“

Þá segir Zuhaitz að starfsfólk Tækniminjasafnsins hafi fengið mikla hjálp og leiðbeiningar við gerð verkferla um meðferð munanna. Hann segist ekki geta sagt til um hversu stór hluti glataðist og hversu stór bjargaðist.

„Renniverkstæðið var mikilvægasta safnasvæðið okkar og það glataðist nánast allt.“

Hann segir að í stórum hluta safnisins hafi ekkert bjargast. Risastór tæki á borð við prentvélarnar og traktor fóru í klessu við höggið og inni í safninu, innan um aurinn, var að finna grjót á stærð við bíla.

Munir sem bjargað hefur verið ur Tækniminjasafninu.
Munir sem bjargað hefur verið ur Tækniminjasafninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Svo það ætti ekki að koma neinum á óvart hve mikil eyðileggingin var.“

Zuhaitz segir kaflann þar sem verið er að velta sér upp úr eyðileggingunni senn að baki og komið að því að byggja upp.

„Við misstum mjög mikið, en við eigum nóg til að setja á fót safn sem getur haldið uppi merkjum Tækniminjasafnsins.“

Sögufrægur traktor eyðilagðist mikið við höggið. Hann er eins konar …
Sögufrægur traktor eyðilagðist mikið við höggið. Hann er eins konar táknmynd afls skriðunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert