Heilbrigðisráðuneytið svarar ákalli lækna

Heilbrigðisráðuneytið.
Heilbrigðisráðuneytið. Ljósmynd/Aðsend

Heilbrigðisráðuneytið segist taka skilaboðum lækna mjög alvarlega en um þúsund læknar afhentu ráðuneytinu fyrr í vikunni undirskriftalista þar sem lækn­arn­ir vísa all­ir ábyrgð á stöðu heil­brigðismála á stjórn­völd.

Heilbrigðisráðuneytið gaf frá sér yfirlýsingu í gær á vef Stjórnarráðins þar sem segir að skilaboð lækna séu grafalvarleg, „bæði vegna þeirrar aðstöðu starfsfólks sem þeir lýsa en ekki síður vegna þess að þetta ástand veldur stöðnun og jafnvel afturför á mikilvægum sviðum heilbrigðisþjónustunnar“.

Á ekki við um alla þætti

Bent er þó á að staðan sem læknar lýsa eigi engan veginn við um alla þætti heilbrigðiskerfisins. Er í því sambandi er meðal annars minnst á aukin fjárframlög og efling heilsugæslunnar, geðheilbrigðisþjónustu og heimahjúkrunar. 

Í yfirlýsingunni segir:

Markmiðið þarf að vera að finna leiðir og lausnir sem eru til þess fallnar að gera heilbrigðisþjónustuna að eftirsóknarverðum starfsvettvangi þar sem veitt er góð og markviss heilbrigðisþjónusta og fjármunir nýttir á sem allra bestan hátt. Þetta gerum við með því að leggja aukna áherslu á menntun og mönnun heilbrigðisstétta, vísindi, nýsköpun og þróun, að halda áfram uppbyggingu nýs Landspítala og takast með markvissum hætti á við áskoranir nýrra tíma.

mbl.is