Katrín öfunduð af öðrum forsætisráðherrum

Katrín Jakobsdóttir. Blaðamannafundur um afléttingar í Safnahúsinu.
Katrín Jakobsdóttir. Blaðamannafundur um afléttingar í Safnahúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var létt hljóð í Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfundinn í dag. Hún er þakklát fólkinu í landinu fyrir traustið og þátttökuna í ferlinu en öllum takmörkunum innanlands verður aflétt á miðnætti.

„Þetta er stór ákvörðun en við teljum það gerlegt vegna góðrar þátttöku í bólusetningum Erum búin að fá reynslu af stöðunni undanfarna daga og vikur svo þetta er skref sem við stígum.“

Katrín kveðst þakklát og stolt að tilheyra samfélagi sem hefur bæði tekist svona vel á við ráðstafanir vegna sóttvarna en hefur líka tekið svona mikinn þátt í bólusetningu sem veldur því að Ísland sé að ná einum besta árangri í heiminum.

Katrín segist hafa fundið fyrir öfund frá öðrum forsætisráðherrum fyrir traust þjóðarinnar og vilja fólksins til að taka þátt bæði í aðgerðunum og í bólusetningum.

Mikilvægt að þora að stíga skrefið

Spurð hvort ríkisstjórnin sé ekki stressuð fyrir svo stórum ákvörðunum segir Katrín að auðvitað sé um að ræða stóra ákvörðun og vilji sé til að vera varkár. Því sé ekki farið í að aflétta öllu, reglum um sóttkví og tvær skimanir á landamærum fyrir þá sem ekki eru fullbólusettir. 

„Það er samt mikilvægt að þora að stíga skrefið þegar aðstæður eru metnar réttar. Við munum fylgjast vel með áfram en það er tímabært að stíga þetta skref.“

Katrín segist ætla að verja sumrinu á Íslandi enda þykir henni best að vera hér og ferðast innanlands.

Katrín hefur verið með minnisblöð um stöðu heimsfaraldursins á sínu borði í hverri viku frá því í október. „Mitt líf hefur bara snúist um fátt annað undanfarna mánuði.“

Hún segir næsta verk vera að fara yfir þetta tímabil og læra af því enda sé mikilvægt að draga lærdóm af allri erfiðri reynslu.  

mbl.is