Spennt fyrir að hætta að skerða frelsi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Blaðamannafundur um afléttingar í Safnahúsinu.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Blaðamannafundur um afléttingar í Safnahúsinu. Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fagnar þeim tilslökunum sem kynntar voru í dag. Hún vonast til þess að brátt verði hægt að aflétta öllum takmörkunum á landamærunum og hlakka til þess þegar viðfangsefni stjórnmála hætta að snúast um að takmarka frelsi fólks. 

„Við erum búin að fórna svo miklu í marga mánuði. Vera hér að tilkynna takmarkanir og hertar aðgerðir í sífellu,“ sagði hún í viðtali við mbl.is. „Fólk nýtur þess vonandi að eiga hér frjálst sumar.“

Samstaða og góð þátttaka fólks í bólusetningar hefur verið lykilþáttur í baráttunni við Covid að mati Áslaugar og hún vonar að þessi samstaða sé komin til að vera.

Ónauðsynlegt að skima bólusetta

Áslaug vonar að fljótlega verði farið í frekari tilslakanir á landamærum en frá og með 1. júlí verður hætt að skima bólusetta farþega. Áslaug segir þetta hafa verið mikilvægt skref enda væri reynslan búin að leiða það í ljós að ónauðsynlegt væri að skima bólusetta farþega.

Takmarkanir eru þó enn í gildi varðandi þá sem ekki hafa fengið bólusetningarvottorð. „Nú reynir á hjarðónæmið sem virðist hafa verið að virka miðað við þau smit sem hafa þó komið til landsins en ekki náð neinni dreifingu,“ sagði hún. 

Reynir á hjarðónæmið

Ef hjarðónæmið heldur áfram að sanna sig telur Áslaug enga ástæðu til þess að halda áfram nokkrum takmörkunum. „Við viljum lifa í opnu og frjálsu samfélagi og ég vona bara að það verði sem fyrst.“

Áslaug benti á að til þess að ná fyllilega efnahagslegri viðspyrnu þyrfti að aflétta öllum takmörkunum á landamærunum. 

Hvað varðar ferðalög Íslendinga sagði Áslaug að samtal væri í gangi við Schengen löndin og önnur lönd utan svæðisins, að hleypa Íslendingum þangað. Fólk sem er bólusett, líkt og meirihluti Íslendinga er nú, á auðveldara með að ferðast en þó eru takmarkanir víða. Áslaug vonast til að aðrar þjóðir taki Íslendinga til fyrirmyndar og skili sér í bólusetningar.

Heimsfaraldur mestallan tíma hennar í ríkisstjórn

Heimsfaraldurinn hefur sett svip sinn á stjórnmálin um alllangt skeið og orðið til þess að önnur málefni hafa mörg þurft að lúta í lægra haldi. „Það hefur verið heimsfaraldur mestallan tímann sem ég hef verið í ríkisstjórn,“ segir Áslaug.

Þó það hafi verið lærdómsríkt segir Áslaug tilhlökkunarefni að sóttvarnarráðstafanir verði ekki inn á borði ríkisstjórnarinnar í hverri viku. „Ég er spennt fyrir því þegar viðfangsefnin verða ekki að takmarka frelsi fólks heldur að auka það og einfalda líf fólks,“ sagði hún kát. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert