Team Cube sigrar í liðakeppni Síminn Cyclothon

Liðsmenn Team Cube fagna sigrinum.
Liðsmenn Team Cube fagna sigrinum.

Lið Team Cube kom fyrst liða í mark í karlaflokki hjólakeppninnar Síminn Cyclothon eftir að hafa hjólað rúmlega 1.350 km leið umhverfis Ísland. Liðið kom í mark á tímanum 37:02:29.

Í öðru sæti var lið Ljóssins á tímanum 38:34:39 og í þriðja sæti liðið Team Sensa á tímanum 39:12:38, að því er segir í tilkynningu. 

Í blönduðum flokki kom lið Storytel fyrst í mark á tímanum 39:10:16, sem jafnframt var þriðji besti tíminn í keppninni í ár. Alls voru átta hjólreiðamenn í hverju liði í liðakeppninni. Stutt var á milli allra þessara fjögurra liða fyrri hluta keppninnar en á Norðurlandi fóru liðin að slíta sig hvert frá öðru og þegar komið var á Austurland var bilið á milli þeirra orðið talsvert.

Í einstaklingsflokknum kom Jake Catterall í mark á tímanum 63:26:34. Þá kom hjólakraftur í mark á tímanum 57:23:42.

Búast má við síðustu keppendum í mark í kvöld og er hægt að fylgjast með stöðu þátttakenda í rauntíma á vefnum www.siminncyclothon.is

Mynd: Liðsmenn Team Cube fagna sigrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert