Vilja ekki loka hleðslustöðvunum strax

Ein af rafhleðslustöðvum ON í Reykjavík.
Ein af rafhleðslustöðvum ON í Reykjavík. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útboðsmála sem ógilti samning Reykjavíkurborgar við Orku náttúrunnar vegna hleðslustöðva verði frestað.

Reykjavíkurborg bauð út uppsetningu og rekstur götuhleðsla og tók tilboði frá ON sem bauð lægst í verkefnið. Úrskurðarnefnd útboðsmála komst síðan að þeirri niðurstöðu eftir kæru Ísorku að Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða verkið út á evrópska efnahagssvæðinu.

 Með úrskurðinum féll réttur til gjaldtöku á stöðvunum niður og Reykjavíkurborg var gert að bjóða verkið út aftur. ON brást við með því að hætta gjaldtöku og taka niður merkingar á stæðunum, en fólk gat áfram nýtt stöðvarnar.

Yfir þessu kvartaði Ísorka og Reykjavíkurborg sá sig knúna til að biðja ON að rjúfa straum til hleðslustöðvanna. Um er að ræða 156 hleðslustöðvar sem ON rekur samkvæmt samningnum víðsvegar um borgina.

Nú hefur Reykjavíkurborg óskað eftir því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað. Þau séu íþyngjandi fyrir borgarbúa sem margir hverjir nýti rafknúna bíla og treysti á hleðslustöðvarnar. Vísað til þess að samkvæmt tölum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda hafi rafbílar verið um 45,5 prósent nýskráðra bíla á fyrstu fimm mánuðum ársins.

Rafbíll við hleðslustöð Orku náttúrunnar.
Rafbíll við hleðslustöð Orku náttúrunnar.


Sérstakar aðstæður réttlæti frestun

Þá séu sérstakar aðstæður uppi sem réttlæti að beiðni um frestun á réttaráhrifum verði tekin til greina. Skylda samningsins um uppsetningu stöðvanna hafi þegar verið uppfyllt að næstum öllu leyti og niðurstaða úrskurðarins því verulega íþyngjandi.

Óvirkni samningsins muni valda eigendum rafbíla erfiðleikum og þá hafi kröfu Ísorku ehf. um stöðvun umrædds útboðs í október verið hafnað af kærunefnd og Reykjavíkurborg og ON hafi því efnt samninginn sem komst á í kjölfar útboðsins í góðri trú.

Reykjavíkurborg skoðar nú grundvöll þess að láta reyna á lögmæti úrskurðarins samhliða því að vinna að undirbúningi nýs útboðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert