Umferðaröngþveiti á Selfossi: „Nýja brú strax!“

Nokkur umferð var við Selfoss um fjögurleytið á föstudag.
Nokkur umferð var við Selfoss um fjögurleytið á föstudag.

Nokkurrar óánægju gætir meðal íbúa á Selfossi og annarra sem eiga leið þar um vegna umferðaröngþveitis sem skapast oft við bæinn, sérstaklega um helgar.

Vilborg G. Hansen, íbúi á Selfossi, er ein þeirra sem hefur þurft að bíða lengi í bílnum til að komast inn á Selfoss. „Ég var klukkustund að komast inn í bæinn frá endanum á Hveragerði, leið sem tekur um tíu mínútur. Ég keyri fram hjá Hveragerði og þá er umferðin bara að keyra á tíu, ekki einu sinni það,“ segir hún.

Hún hefur verið búsett á Selfossi í þrjú ár og segist hafa tekið eftir mikilli aukningu á umferðinni á þeim tíma. Erfitt sé að komast inn í bæinn síðdegis og ferðamenn eigi enn eftir að bætast við eftir Covid.

Þá sé mjög erfitt að komast út á aðalveg bæjarins og íbúar þurfi annaðhvort að keyra íbúðargötur eða keyra á enda bæjarins að hringtorgi til að snúa við.

Gert ráð fyrir tveir plús einn vegi

Unnið er að nýjum vegi á milli Hveragerðis og Selfoss en gert er ráð fyrir að hann verði tveir plús einn með möguleika á breikkun síðar. Vilborg segir að nær væri að hafa veginn tvöfaldan í báðar áttir.

Þá myndi umferðin skiptast upp í þá sem eiga leið á Selfoss og þá sem eru að fara í bústaði og beygja upp í Grímsnes við Biskupstungnabraut og það myndi létta mikið á umferð.

Brúin yfir Ölfusá.
Brúin yfir Ölfusá. mbl.is/Sigurður Bogi

Drífa þurfi nýja brú í útboð

Byggja á nýja brú yfir Ölfusá ofan við Selfoss og er áætlað að hún verði kláruð í lok árs 2023 eða árið 2024, líkt og fram kemur á Vísi.

„Við erum að bíða eftir og hamra á að ný brú verði byggð yfir Ölfusá sem fyrst til að létta á umferðinni. Töluverður hluti umferðarinnar er að fara austur og þegar ný brú kemur fáum við ekki alla þessa óþarfa umferð í gegnum bæinn, til dæmis þungaflutningana,“ segir Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar.

Nýja brúin er að hans sögn lykillinn að framtíðarskipulagi svæðisins.

Hann leggur áherslu á að verkið verði boðið út sem fyrst. „Þegar búið verður að bjóða það út tekur við tveggja ára verkefni að klára brúna. Við bíðum eftir því að þetta verði boðið út svo þetta komist af stað, sá tími sem líður þangað til þetta verður boðið út bætist við þessi tvö ár. Okkur er sagt að það muni gerast kannski í haust eða um áramótin,“ segir Helgi. 

Hann segir að þangað til sé lítið hægt að gera til að liðka fyrir umferðinni en sumir íbúar séu farnir að keyra Þrengslin til að koma hinum megin inn á Selfoss. Málið sé í ákveðinni pattstöðu.

Umferð á Suðurlandsvegi er oft þung.
Umferð á Suðurlandsvegi er oft þung. mbl.is/Sigurður Bogi

Númer eitt, tvö og þrjú

Hvað varðar veginn á milli Hveragerðis og Selfoss segir Helgi að Vegagerðin vinni eftir ákveðnum umferðastöðlum um hve mikil umferð þarf að vera til að lagður sé tveir plús tveir vegur og það sé lítið hægt að eiga við það.

Bæjarstjórn hafi hins vegar bent Vegagerðinni á að úr því að áætlanir geri ráð fyrir mislægum gatnamótum beggja megin við Selfoss ætti að ráðast í þau strax, en Vegagerðin gerir ráð fyrir að byggja fyrst venjuleg hringtorg og byggja mislægu gatnamótin síðar.

„Fyrst það er búið að hanna mislæg gatnamót og tryggja land fyrir þau ætti að hugsa um að byggja þau strax, því við sjáum fyrir okkur að með einföldum hringtorgum verði enn þá ákveðinn tappi í umferðinni við bæinn,“ segir hann.

„En nýja brúin er númer eitt, tvö og þrjú og við erum búin að hamra á henni í mörg ár. Hún er lykillinn og mun losa okkur við umferð og þungaflutninga í gegnum bæinn. Það þarf að drífa hana í útboð og framkvæmd. Nýja brú strax!“ segir Helgi.

mbl.is