Þrjú hundruð manns leituðu ferðamannsins

Björg­un­ar­sveit­ir víða að á land­inu voru kallaðar út vegna leit­ar …
Björg­un­ar­sveit­ir víða að á land­inu voru kallaðar út vegna leit­ar að ferðamanninum við gosstöðvarn­ar. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Hátt í þrjú hundruð manns komu að leit að erlenda ferðamanninum, sem fannst heill á húfi í gærkvöldi eftir um sólarhrings leit. Þetta segir Jónas Guðmundsson í samtali við blaðamann mbl.is.

„Rétt tæplega 100 manns voru að leita þegar maðurinn fannst. Samtals komu að þessari aðgerð hátt í 300 manns.“

Mikil gleði yfir öllum

„Það er alltaf ljúft og gott þegar þetta endar vel. Því miður er það ekki alltaf þannig,“ segir Jónas. Hann segir að mikil gleði hafi verið yfir öllum sem að leitinni komu en að eflaust hafi mesta gleðin verið yfir manninum sjálfum og eiginkonu hans.

Jónas segir að eftir hans vitund sé ekki búið að fara í skýrslutöku af manninum og því liggur ekki fyrir hvort hann hafi gert sér grein fyrir því að leitað hafi verið að honum. 

„Yfirleitt er fólki leyft að hvíla sig áður en farið er í það.“

Jónas segir síðan að ekki séu neinar nýjar fregnir af gosinu. „Það heldur bara áfram að lulla þarna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert