Von á fleiri útköllum

Björgunarsveitir í leit að týndum ferðamanni viðgosstöðvarnar um helgina.
Björgunarsveitir í leit að týndum ferðamanni viðgosstöðvarnar um helgina. mbl.is/Sigurður Unnar

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, býst við að álagið við gosstöðvarnar verði svipað því sem það hefur verið þrátt fyrir fyrirsjáanlega fjölgun ferðamanna á næstu vikum og mánuðum. Þó segist hann eiga von á fleiri útköllum um landið allt. 

Frá því að eldgosið hófst í Geldingadal hefur aðsóknin verið gríðarleg enda vildu fáir missa af tækifærinu að berja það augum. Rögnvaldur segir að almannavarnir hafi strax áttað sig á því að þessu fylgdu áskoranir og því hafa björgunarsveitir staðið vaktina á svæðinu ásamt lögreglu frá fyrsta degi. 

„Við höfum prísað okkur sæla að það hafi ekki verið fullt af ferðamönnum þegar þetta byrjaði. Það hefði reynst meiri áskorun, sérstaklega í vetur,“ segir Rögnvaldur. Heimamenn voru næg áskorun að hans sögn. „Aðdráttaraflið er svo sterkt að fólk í alls konar formi og ekki í formi var að fara þangað,“ bætir hann við og segir svipað eiga við um erlenda ferðamenn. 

Óhappatilvik elta heimamenn ekki síður

Um helgina týndist bandarískur ferðamaður á gosstöðvunum eftir að hafa orðið viðskila við eiginkonu sína. Hann fannst eftir umfangsmikla sólarhringsleit og var fluttur á Landspítalann. „Þetta er í sjálfu sér nokkuð sem við höfum verið viðbúin frá því að þetta byrjaði,“ segir Rögnvaldur en telur að um óhappatilvik hafi verið að ræða. 

Rögnvaldur bendir á að auðvelt sé að tapa áttum og þá sérstaklega í þoku. Það hafi gerst áður en þá hefur fólk oftast verið með síma á sér. Það eykur áhættuna einnig að ekki er lengur til staðar jafn skilgreind og afmörkuð gönguleið að gosstöðvunum svo fólkið dreifist meira um svæðið og vill skoða misjafna hluti. 

Óhappatilvik elta heimamenn ekkert síður en ferðamenn að sögn Rögnvalds. Hins vegar átta ferðamenn sig ekki alltaf á íslenskum aðstæðum, þá sérstaklega hve hratt og oft veðrið getur breyst hér. Slíkt getur komið ferðamönnum í klandur og það gildir jafnt á gosstöðvunum og annars  staðar.

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn mbl.is/Eggert Jóhannesson

Góð upplýsingagjöf til ferðamanna

Rögnvaldur segir að upplýsingagjöf til ferðamanna sé markvisst sífelluverkefni sem hafi gengið nokkuð vel. „Þótt ferðamannafjöldinn hafi aukist svona gríðarlega síðustu ár hafa útköllin ekki verið í sama veldisvexti, sem betur fer.“

Hann segir að björgunaraðilar eigi von á fleiri útköllum eftir því sem ferðamannastraumurinn eykst til Íslands, með tilslökunum á landamærum og hækkandi bólusetningarhlutfalli annarra þjóða. Þó sé þessi hliðarverkun ferðamannaiðnaðarins í betra horfi en áður, einmitt vegna betri upplýsingagjafar. 

Vefsíður eins og safetravel.is og heimasíður ferðaþjónustuaðila tilgreina áskoranir sem er að finna víðast hvar um landið og hvernig fólk eigi að mæta þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert