Gæti farið upp í 29 stiga hita

Hitaspáin á landinu kl. 12 á morgun.
Hitaspáin á landinu kl. 12 á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Miklum hlýindum er spáð á morgun og á miðvikudag á Austurlandi, en þar mun hitinn ná allt að 26 stigum á Egilsstöðum. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir aftur á móti að hitinn muni líklega fara fram úr spám Veðurstofunnar.

„Hversu hlýtt verður á morgun og miðvikudag? Ég mundi giska á 28 til 29 stiga hita. Spáð er skýjuðu og sólarlitlu, en léttskýjað á miðvikudag. En allir þættir verða að spila saman og að auki að vera ekki fjarri hæstu stöðu sólar. Vissulega heiðarleg atlaga að Íslandsmeti hitans, en sjálfur er ég samt þeirrar skoðunar að það takist ekki í þessari góðu tilraun,“ segir Einar í pistli á síðunni blika.is.

Slær í 30 metra á sekúndu á norðanverðu Snæfellsnesi

Hann bætir við að fólk sem er að ferðast með aftanívagna um Norðvesturland á morgun þurfi að huga vel að aðstæðum þar sem miklum vindi er spáð á svæðinu.

„Það slær í 30 m/s í hviðum á norðanverðu Snæfellsnesi, og almennt séð verður hvasst framan á deginum á Norðvesturlandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert