Þótti símtalið óviðeigandi

Nokkur styr hefur staðið um leghálsskimanir að undanförnu.
Nokkur styr hefur staðið um leghálsskimanir að undanförnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er með breitt bak og svaraði honum bara á móti og stundum hló ég. Þetta var fáránlegt af honum á alla kanta,“ segir Karen Eva Helgudóttir um símtal sem hún fékk fyrr í dag frá kvensjúkdómalækninum Kristjáni Oddssyni.

Símtalið kom í kjölfar þess að Karen tjáði sig um slæma reynslu af heilbrigðiskerfinu í Bítinu á Bylgjunni í morgun, en leghálssýni hennar var fargað þrátt fyrir að hún hafi greinst með frumubreytingar í leghálsi á síðasta ári, þar sem of skammt var liðið frá leghálsspeglun. 

Karen Eva tjáði sig um atvikið á Bítinu á Bylgjunni í dag en eftir viðtalið fékk hún upphringingu frá Kristjáni Oddssyni, fagstjóra lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg, sem bar ábyrgð á þeirri ákvörðun að sýni hennar var fargað.

Kom fram af dónaskap og hroka

Í samtali við mbl.is segir Karen að Kristján hafi komið fram af dónaskap og hroka, og gert lítið úr bæði konum og öðrum læknum í símtalinu þeirra á milli.

„Hann var í raun bara að segja að læknar vissu yfirhöfuð ekki hvað þeir væru að gera með þessar leghálsstrokur og að læknar ættu ekki að skima þegar konur væru með einkenni. Þær ættu að fara í leghálsspeglun.“

Kristján bauð Karen að fá aðstoð hans í þessu máli, meðal annars að koma í leghálsspeglun til hans, sem hún afþakkaði. Bætir þá Karen við að hún hafi nú þegar verið búin að láta reyna á öll þau úrræði sem hann stakk upp á.

„Hann bætti einnig við að hann heyrði að ég hefði saknað hans í síma,“ segir Karen Eva Helgudóttir um símtal sem hún fékk fyrr í dag frá kvensjúkdómalækninum Kristjáni Oddssyni.

Í frétt á vef Fréttablaðsins um málið kemur fram að höfnunin á greiningu sýnis verði tilkynnt til embættis Landlæknis. Þar kemur einnig fram að Kristján hafi ekki viljað tjá sig um frásögn Karenar Evu af símtalinu, en hann hafi sjálfur óskað þess að málið verði metið innan Landlæknisembættisins.

Að sögn Karenar endaði símtalið á því að Kristján hrósaði henni fyrir að vera gáfuð og að símtalið hefði verið uppbyggjandi fyrir hann en margir sem hann talaði við hefðu ekki mikið vit í kollinum.

Segir hann hafa haft trúnaðarupplýsingar

Í símtalinu vitnaði Kristján einnig í að Karen hefði farið í leghálsspeglun í janúar og var hann einnig með nafnið hjá lækninum sem hafði framkvæmt hana. Þótti Karen Evu þetta áhugavert í ljósi þess að hún taldi að slíkar upplýsingar væru trúnaðarmál, en Kristján hefur aldrei verið læknir hennar og ætti því ekki að hafa þessar upplýsingar.

Karen segir að sér finnist þetta óþægilegt og veltir því einnig fyrir sér hvernig hann hafi nálgast símanúmer hennar en það ætti hvergi að vera skráð opinberlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert