Mögulegt að leghálsskimanir verði færðar heim

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir til skoðunar innan ráðuneytisins að flytja rannsóknarhluta leghálsskimana aftur til Íslands, sem áður hafði verið ákveðið að yrði í höndum danskrar rannsóknarstofu. 

Þetta sagði hún í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun og greint er frá á vef RÚV.

Svandís segir slíka breytingu þó krefjast mikillar undirbúningsvinnu. Um síðustu áramót kom það í hlut Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að framkvæma skimanir fyrir leghálskrabbameini en áður var það í höndum Krabbameinsfélagsins. 

Traust ekki fyrir hendi

Ráðherra segir að traust ríki ekki á Íslandi um að rannsóknarhluti þessa ferlis fari fram í Danmörku.

„Traustið á þessum breytingum er ekki fyrir hendi í samfélaginu og það er áhyggjuefni í sjálfu sér. Þess vegna höfum við verið að ræða það að undanförnu bæði við heilsugæsluna og við Landspítalann að mögulega að flytja þennan rannsóknarhluta heim með þeim undirbúningi sem Landspítalinn þarf á að halda sem er þá með því að tryggja mönnun, tækjabúnað og húsnæði til þess að geta tekið við þessu hér.“

Svandís sagði einnig að hún vonaðist til þess að geta greint nánar frá þessum áformum á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert