Rýming enn í gildi vegna skriðuhættu

Skriðan sem féll í gær sést vel hér.
Skriðan sem féll í gær sést vel hér. Ljósmynd/Lögreglan á Norðurlandi vestra

Rýming vegna skriðuhættu er enn í gildi í nokkrum húsum í Varmahlíð en eins og greint hefur verið frá féll aurskriða á tvö hús á svæðinu í gær. Ákvörðunin verður endurskoðuð á fundi almannavarnanefndar Skagafjarðar og verður ný ákvörðun tilkynnt klukkan 11.00. 

Lögreglan á Norðurlandi vestra greinir frá þessu.

Engan sakaði þegar aurskriðan féll í gær. 

Tilkynningin frá lögreglunni er svohljóðandi:

Eins og kunnugt er féll aurskriða á íbúðarhúsin nr.13 og 15 við Laugaveg í Varmahlíð fyrr í dag. Ákvörðun var tekin um rýmingu á fyrrgreindum húsum, sem og húsi nr. 17, Laugahlíð og Úthlíð við sama veg. Einnig voru rýmd húsin nr. 5, 7 , 9 og 11 við Norðurbrún.
Ákveðið hefur verið að rýmingin standi að svo stöddu en ákvörðun um framhaldið liggur fyrir eftir fund almannavarnanefndar Skagafjarðar sem haldinn verður í fyrramálið. Tilkynning verður birt hér kl. 11.00.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert