Uppruni vatnssöfnunar ekki þekktur

Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru …
Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru rýmd. Ljósmynd/Lögreglan

„Það eru hlýindi og snjóbráð hátt úr fjöllum. Það er það sem gerist að hluta til. Aurskriðan í Varmahlíð virðist ekki vera tengd þessu beint,“ segir Esther Hlíðar Jensen, sérfræðingur á ofanflóðavakt hjá Veðurstofu Íslands, um aurskriðurnar þrjár sem fallið hafa síðastliðinn sólarhring í Skagafirði. 

Hún segir að ekki sé hægt að segja að það sé samband á milli aurskriðunnar í Varmahlíð og hinna tveggja, sem stafa líklega af miklu vatnsrennsli í jörðu vegna snjóbráðar. 

„Það er eitthvað sem hefur verið vitað frá því í vetur, að það væri einhver vatnssöfnun [í Varmahlíð] hvers uppruni væri ekki þekktur.“ Það er líklegt að vatnið komi úr hlíðinni eins og alltaf hafi verið en ástæða þess að það hafi farið að renna þarna er óþekkt.

Hún segir að nú sé unnið að því að greina upprunann. Sérfræðingur frá Veðurstofunni hafi farið norður í vetur vegna þess að sprunga hafði myndast í vegi og greint að fara þyrfti í framkvæmdir til að drena, og þær hafi ekki verið hafnar. 

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra og forseti bæjarstjórnar í Skagafirði, sagði í viðtali við mbl.is í dag að vinnuvélar hefðu verið tiltækar og vinnuflokkur mættur á svæðið til að hefja dren þegar skriðan féll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert