Almannavarnir munu ekki leggja hraunbrú

Hraunrennslið í Nátthaga.
Hraunrennslið í Nátthaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum ekki að fara í þessa framkvæmd,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum í samtali við mbl.is varðandi hugmynd Magnúsar Rannver Rafnssonar verkfræðings um að leggja hraunbrú yfir Suðurstrandaveg.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Ljósmynd/Lögreglan

„Við fengum þessa tillögu frá Magnúsi sem var mjög gaman að sjá en við erum ekki að fara í þetta verk þar sem það er of umfangsmikið og stórt til þess að við séum að standa í því. Þetta er með sama hætti og við ákváðum að fara ekki í aðrar pælingar varðandi stærri varnarvirki í Nátthaga,“ segir Rögnvaldur.

Rögnvaldur segir að hraun muni flæða yfir Suðurstrandaveg að lokum. „Við erum farin að horfa á þetta í öðrum fasa, áður vorum við að horfa tvær til þrjár vikur fram í tímann en nú erum við farin að horfa mánuði eða ár fram í tímann. Miðað við þær forsendur er í raun erfitt að réttlæta að fara í mjög viðamiklar og stórar framkvæmdir sem er fyrirséð að mun ekki duga.“

Rögnvaldur segir að almannavarnir séu frekar að einbeita sér að svæðinu vestan við Nátthagakrika þar sem eru aðrir innviðir. „Það er möguleiki á að við leggjumst í framkvæmdir þar en við erum enn að bíða eftir niðurstöðum úr hermunum og frumhönnunar pælingum, hvað er raunhæft að gera í þeim efnum.“

mbl.is