„Enn betra að fá Pfizer í seinni skammt“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta reddaðist bara mjög vel,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, en skammtar af AstraZeneca bóluefninu kláruðust í dag áður en bólusetningu var lokið og því var fólki boðið upp á Pfizer bóluefnið í seinni skammt.

Þegar blaðamaður náði tali á Ragnheiði um hálf fjögur í dag sagði hún að bólusetning væri að klárast og ekki hafi þurft að vísa neinum frá. „Það fengu allir Pfizer sem vildu en röðin varð svolítið löng af því við þurftum að uppfæra tölvukerfið hjá okkur.“

Bólusetning í Laugardalshöll.
Bólusetning í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Voru einhverjir sem afþökkuðu að fá Pfizer í seinni skammt?

„Ótrúlega fáir. Ég labbaði framhjá allri röðinni og það voru kannski tíu sem ákváðu að bíða eftir næstu sendingu af Astra. Það voru svona 99,9% sem fannst þetta bara enn betra að fá Pfizer í seinni skammt.“

Næsta sending af AstraZeneca kemur í lok næstu viku að sögn Ragnheiðar og verða það um tvö þúsund skammtar. Í næstu viku verður bólusett með Pfizer og segir Ragnheiður að nóg sé til af því fyrir alla sem eigi eftir að fá seinni skammt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert