Hvernig í ósköpunum fer maður hringinn á rafbíl?

Rafbíll við hraðhleðslustaur.
Rafbíll við hraðhleðslustaur.

Rafbílavæðingin hefur verið mikið milli tannanna á fólki undanfarið og með hverjum deginum taka sífellt fleiri sín fyrstu skref í átt að rafvæðingunni. Það sem af er ári 2021 eru til að mynda 66 prósent allra nýskráðra bíla á Íslandi rafmagns- eða tvinnbílar samanborið við aðeins 22 prósent fyrir þremur árum.

Á sama tíma virðist sem ferðasumarið 2021 verði að mestu innanlands, annað árið í röð, og því skiljanlegt að margur rafbílaeigandinn klóri sér í kollinum og hugsi: „Hvernig í ósköpunum fer maður hringinn á rafbíl?“

Sódavatn á bensínstöð

„Það má í raun skipta innviðum í tvo flokka: Það er að hlaða bíl í stoppi og stoppa til þess að hlaða,“ segir Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri Ísorku. Það þurfi að vera hægt að stoppa til þess að hlaða hratt fyrir þá sem eru að ferðast. Ísorka er eina fyrirtækið á Íslandi sem sinnir engu öðru en hleðslu rafbíla.

Í smáforriti Ísorku má finna hraðhleðslustöðvar víðs vegar um landið. Til að mynda eru hraðhleðslustöðvar utan höfuðborgarsvæðisins frá Ísorku á Reyðarfirði, Höfn, Siglufirði, Hólmavík, Patreksfirði, Flókalundi og Bjarkalundi. Þá sýnir forritið fleiri stöðvar frá samkeppnisaðilum.

„Hraðhleðslu kalla ég oft sódavatn á bensínstöð,“ segir Sigurður. „Ofurþjónusta fyrir þá sem þurfa að hlaða og eru að fara út fyrir sitt svæði. Flestir hlaða heima hjá sér eða þegar bíll er stopp.“

Sigurður segir að það þurfi að vera hægt að stoppa …
Sigurður segir að það þurfi að vera hægt að stoppa til þess að hlaða fyrir þá sem eru að ferðast. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísorka vinnur nú hörðum höndum að opnun tveggja nýrra hraðhleðslustöðva úti á landi, í Borgarnesi og Stykkishólmi. Sigurður segir þær báðar á lokametrunum og opni áður en ferðasumarið nær hámarki.

„Stöðin er klár. Við erum bara að ganga frá ákveðinni pappírsvinnu og hönnunarferli þar,“ segir hann um stöðina í Stykkishólmi. „Svo er bara engin meiri dagskrá fyrir sumarið,“ segir hann, en kórónuveiran setti hins vegar strik í reikninginn.

Afhendingartími á búnaði hefur nefnilega dregist svakalega.

„Það er Covid úti um allan heim,“ segir hann en hann gerir ráð fyrir að stöðvar sem fyrirtækið ætlaði að setja upp í júní eða júlí muni dragast fram í ágúst eða september, jafnvel október.

„Það er allt í botni núna, það eru allir að spretta af stað,“ segir hann.

Rafbílar í stoppi. „Það má í raun skipta innviðum í …
Rafbílar í stoppi. „Það má í raun skipta innviðum í tvo flokka: Það er að hlaða bíl í stoppi og stoppa til þess að hlaða,“ segir Sigurður. mbl.is/Hari

Ekki spurning um hvort heldur hvenær

Spurður um rafbílavæðinguna og svakalega uppsveiflu í rafbílasölu á Íslandi segir hann að þetta sé ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær.

„Eina þrætueplið í þessu öllu saman er hversu hratt þetta er að gerast. Það er enginn að velta því fyrir sér hvort þetta sé að gerast heldur hversu hratt þetta gerist,“ segir Sigurður. 

Og þetta er að gerast svolítið hratt núna, ekki satt?

„Jú umræðan um rafbíla er að stóraukast og jákvæðnin og við finnum það að ótrúlegasta fólk er komið á rafbíl,“ segir hann.

Ísorka þjónustar fjöldann allan af hleðslustöðvum um land allt, mest af því eru bílastæði fyrir bíla í stoppi en á landsbyggðinni er fókus á hraðhleðslustöðvar. Af þeim rúmu 900 hleðslustöðvum sem Ísorka þjónustar eru 99 prósent rekin af öðrum fyrirtækjum eða stofnunum, það er að segja aðrir en Ísorka ákvarða gjaldskylduna ef einhver er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert