Myndir sýna óhugnanlegan mátt náttúrunnar

Viðlíka vatnavextir og nú eru í ám á Norðurlandi hafa ekki sést í fjölda ára. Eðlilega vekur þetta athygli íbúa á svæðinu sem og landsmanna allra og hefur mbl.is borist fjöldinn allur af myndum og myndskeiðum sem sýna það sem fyrir augu ber. 

Hér má sjá hvernig foss til móts við Ystafell lætur öllum illum látum.

Meðfylgjandi myndband er af vatnavöxtum í Eyjafjarðará og eins og sjá má hefur hún flætt vel yfir bakka sína. 

Útlitið virðist fara skánandi

Í Fnjóskadal eru starfsmenn Vegagerðarinnar í óða önn við að reyna að bjarga brú yfir ána til móts við Illugastaði, þar sem veginum inn með dalnum hefur verið lokað. Heilmikill hluti vegarins varð ánni að bráð eins og sjá má á myndum sem fulltrúar Vegagerðarinnar tóku. 

Þá er einnig óeðlilega mikið vatn í Glerá, bæjarlæknum sjálfum á Akureyri. Þaðan hefur mbl.is borist einna flestar myndir. Sjá má að Gleráin er vatnsmikil og gruggug í þokkabót. 

Lögregla og viðbragðsaðilar á svæðinu funda nú um stöðu mála og framhaldið í dag. Ljóst er að vatnavöxtunum hefur eitthvað slotað síðan mest var í nótt og mögulega er útlit fyrir batnandi ástand í dag. 
 

mbl.is