„Niðurstaða þeirra er að mínu mati afar óskynsamleg, skapar mikið fjárhagslegt tjón og eykur verulega óvissu um öryggi fólks,“ segir Magnús Rannver Rafnsson verkfræðingur um ákvörðun Almannavarna að taka ekki til skoðunar hugmynd hans um að leggja hraunbrú yfir Suðurstrandaveg.
„Ég hef bent á það, að þetta er eina örugga lausnin sem við höfum, og svo virðist sem aðrar lausnir séu ekki til. Það væri hægt að halda Suðurstrandarvegi opnum, alveg óháð því hve lengi það gýs. Tal um að rjúfa veginn eða verja Suðurstrandarveg með varnargörðum er umræða á villigötum.“
Magnús segir að varnargarðar séu ekki endanleg lausn en geti þó vissulega tafið hraunflæðið. „Vandinn er hegðun hraunsins. Það er ekki hægt að segja fyrir með góðum hætti hvernig það hegðar sér, hvernig það hleðst upp og hvert það fer.“
Hann segir að þetta sé ekki tilfellið með hraunbrú, „hún er endanleg lausn sem virkar alltaf.“