Tók talsverðan tíma að leita í kastalanum

Mikil ringlureið var á vettvangi þegar viðbragðsaðilar mættu.
Mikil ringlureið var á vettvangi þegar viðbragðsaðilar mættu. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Hópslys varð á Akureyri í dag þar sem fjölmörg börn voru um borð í hoppukastala sem fauk upp í loft. Var allt tiltækt lið kallað út að sögn Gunnars Rúnar Ólafssonar, varaslökkviliðsstjóra á Akureyri.

Gunnar Rúnar var með þeim fyrstu sem komu á vettvang eftir að hringt hefði verið í Neyðarlínuna og tilkynnt um marga slasaða.

„Við fengum útkall frá Neyðarlínunni í kringum tvöleytið og útkallið hljómaði upp á mjög marga slasaða þannig að við kölluðum út allt okkar lið. Þegar við komum á vettvang var talsvert af slösuðu fólki,“ segir Gunnar.

Mikil ringulreið á vettvangi

Hann segir að þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var hoppukastalinn niðurfallinn og grunur um að mörg börn væru föst í kastalanum.

„Það upphófst mikil leit í kastalanum og hann var mjög þungur. Við leituðum af okkur allan grun á meðan hluti af liðinu var að sinna slösuðum. Það tók talsverðan tíma að leita og ganga úr skugga um það að enginn væri fastur í honum. Síðan þegar við vorum búnir að leita af okkur allan grun þá byrjuðum við að safna saman fólki sem var í þessu slysi í skautahöllina og byrjuðum að veita því áfallahjálp og slíkt.“

Gunnar bætir við að mikil ringulreið var á staðnum þegar slökkviliðið kom á vettvang.

„Þegar við komum var mikil ringulreið en við náðum fljótt tökum á því, það voru liðsstjórar þarna yfir liðum sem voru að keppa á N1-mótinu. Við fengum þau til þess að safna sínum krökkum saman og halda þeim til hliðar. Þeir sem horfðu á þetta gerast voru í miklu áfalli.“

Mikill viðbúnaður var á svæðinu.
Mikill viðbúnaður var á svæðinu. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Mikið þrekvirki

„Það var mikið þrekvirki unnið þarna. Það kom að þarna fjöldi fólks; slökkviliðsmenn, slökkviliðsmenn á frívakt, lögreglumenn, lögreglumenn á frívakt, björgunarsveitafólk og starfsmenn Rauða krossins.“

Gunnar segir eitt barn hafa slasast alvarlega og var það flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

„Það er eitt barn alvarlega slasað og tvö sem slösuðust minni háttar svo fluttum við aðra upp eftir sem við köllum græna til skoðunar. Síðan voru einhverjir í andlegu áfalli sem fóru líka en svo kom Rauði krossinn fljótt og tók yfir áfallahjálpina og safnaði saman öllum inni í skautahöllinni.“

Öllum aðgerðum á svæðinu var lokið um fjögurleytið að sögn Gunnars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert