Fullviss um að Hvíta-Rússland muni öðlast frelsi

Guðlaugur Þór Þórðarson, ut­an­rík­is- og þró­un­ar­sam­vinnuráðherra og Svetl­ana Ts­íkanovskaja, leiðtogi …
Guðlaugur Þór Þórðarson, ut­an­rík­is- og þró­un­ar­sam­vinnuráðherra og Svetl­ana Ts­íkanovskaja, leiðtogi stjórn­ar­and­stöðunn­ar í Hvíta-Rússlandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svetl­ana Ts­íkanovskaja, leiðtogi stjórn­ar­and­stöðunn­ar í Hvíta-Rússlandi, segir í samtali við mbl.is að fundur hennar með Guðlaugi Þór Þórðar­syni ut­an­rík­is- og þró­un­ar­sam­vinnuráðherra í morgun hafi gengið mjög vel.

„Við ræddum hvernig Ísland getur haldið áfram að styðja við stjórnarandstöðuna í Hvíta-Rússlandi. Ég kom hingað full af þakklæti fyrir það sem landið hefur nú þegar gert fyrir stjórnarandstöðuna, þrátt fyrir fjarlægðina,“ segir Tsíkanovskaja og nefnir að Ísland hafi verið mjög virkt í andstöðu við stjórnarhætti Hvíta-Rússlands síðan kosningar voru í landinu í ágúst.   

Ts­íkanovskaja þakkar Íslendingum fyrir stuðninginn.
Ts­íkanovskaja þakkar Íslendingum fyrir stuðninginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér yfirlýsingar til stuðnings mannréttindum og lýðræði í Hvíta-Rússlandi. Þá styður Ísland einnig frjáls félagasamtök í Hvíta-Rússlandi og tekur þátt í refsiaðgerðum vestrænna ríkja gagnvart Lúkasjenkó-stjórninni.

Mikilvægt að senda einræðisherrum skýr skilaboð

Tsíkanovskaja bauð sig fram gegn Alexander Lúkasjenkó, sem verið hefur forseti landsins frá 1994, í kosningunum. Niðurstöðurnar, sem segja Lúkasjenkó hafa hlotið 80% atkvæða, eru sagðar falsaðar.

„Ég er ótrúlega þakklát fyrir allan þann stuðning sem Ísland hefur veitt okkur sem mótmæla stjórn Hvíta-Rússlands. Stuðningur ykkar sýnir vel að það skiptir ekki máli þó að landið sé smátt og langt í burtu,“ segir Tsíkanovskaja og nefnir að það sé gott að sjá hversu mikilvæg mannréttindi eru stjórnvöldum á Íslandi.

„Það er mjög mikilvægt að senda einræðisherrum skýr skilaboð um að við stöndum með fólkinu sem berst gegn þeim.“

Ekki til neitt sem heitir nægur stuðningur

Spurð hvort alþjóðasamfélagið hafi sýnt stjórnarandstöðunni nægan stuðning segir Tsíkanovskaja að það sé ekki til neitt sem heitir nægur stuðningur. „Hver dagur sem líður þar sem stjórnhættir Lúkasjenkó eru enn við völd er dagur þar sem íbúar landsins búa við þjáningu og þá sérstaklega pólitískir fangar landsins,“ segir Tsíkanovskaja og nefnir að að hennar mati gangi hlutirnir alltof hægt vegna skrifræðis og fleira.

Eiginmaður Tsíkanovskaju er einn þeirra þúsunda Hvítrússa sem voru fangelsaðir á síðasta ári vegna mótmæla. Flestir þeirra hafa hlotið 15 til 20 ára fangelsisdóm. „Maður verður oft örvæntingarfullur yfir því að maður geti ekki flýtt fyrir hlutunum. Ég hef ekki séð manninn minn í að verða ár og börnin okkar spyrja mig oft hvar pabbi þeirra sé.“

Tsíkanovskaja segist vona að Evrópusambandið, Bandaríkin og önnur lönd skilji að Lúkasjenkó sé ekki einungis ógn við íbúa Hvíta-Rússlands heldur einnig heiminn allan. „Ég vona því að viðbrögð alþjóðasamfélagsins verði sneggri og áhrifameiri,“ segir Tsíkanovskaja og nefnir að viðskiptaþvinganir séu einna áhrifaríkastar.

„Fólk mun halda áfram að berjast, það mun ekki gefast upp. Það verður að stöðva þessa stjórnarkreppu og við erum viss um að okkur muni takast það með friðsamlegum viðræðum.“

Ertu vongóð um að Hvíta-Rússland muni losna undan núverandi stjórnarháttum?

„Ég er ekki vongóð, ég er viss um að það muni gerast. Lúkasjenkó heldur í völd sín einungis vegna ofbeldis og því þarf viðskiptaþvinganir til þess að binda enda á það. Með þeim skortir Lúkasjenkó fjármagn til þess að halda ofbeldinu áfram.“

Tsíkanovskaja biðlar til alþjóðasamfélagsins að standa ekki í skiptum á pólitískum föngum eða trúa staðhæfingum Lúkasjenkós.

Tekur sér langþráð frí hérlendis

Tsíkanovskaja verður hérlendis fram á sunnudag en eftir fundinn í dag fór hún á Alþingi og ræddi þar við bæði forseta Alþingis og þingmenn. Að því búnu átti Tsíkanovskaja fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Klukkan þrjú í dag flytur hún erindi á opnum fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Tsíkanovskaja segist eiga langþráð frí í einn dag á morgun sem hún ætlar að njóta á Íslandi. „Ég fæ einungis frí í nokkrar klukkustundir um helgar með börnunum mínum og því er ég mjög þakklát að eiga einn dag í slökun á þessu dásamlega landi.“

Styðji áfram baráttumenn

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók undir með Tsíkanovskaju og sagði að fundurinn hefði gengið mjög vel. „Ég bauð henni hingað vegna þess að það er afskaplega mikilvægt að hún fái tækifæri til þess að tala beint, bæði við almenning og íslenska stjórnmálamenn,“ segir Guðlaugur og nefnir að Tsíkanovskaja og liðsmenn hennar kunni mjög vel að meta stuðning Íslands við málefni Hvíta-Rússlands.

Fundurinn fór fram í morgun í utanríkisráðuneytinu.
Fundurinn fór fram í morgun í utanríkisráðuneytinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þarna er fólk að fara fram á það sem okkur finnst vera fullkomnlega sjálfsagt og er fullkomnlega sjálfsagt. Ég er vonbetri eftir fundinn um að mannréttindi í Hvíta-Rússlandi kunni að þróast í rétta átt.“ Guðlaugur segir að aðalatriðið sé að einstaklingar sem berjist fyrir lýðræðisumbótum í Hvíta-Rússlandi gefist ekki upp og haldi áfram baráttunni með friðsamlegum hætti.

Telur þú að þessi fundur hafi áhrif á samband Íslands við Rússland?

„Það vita allir hver afstaða okkar er gagnvart mannréttindum og í minni tíð sem utanríkisráðherra hefur verið góð samstaða um það. Bæði meðal almennings og sömuleiðis í stjórnmálunum er mannréttindum haldið á loft. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, og mun ekki koma neinum á óvart hver afstaða okkar er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert