Katrín komin yfir meiðslin og ætlar í hlaupið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Hún meiddist á fæti í hlaupum fyrir um það bil ári og fékk sprungu í lærlegg. 

Um tíu kílómetrana sem hún ætlar að hlaupa skrifar Katrín á Facebook:

Nú finnst einhverjum þetta vafalaust ekki neitt svakalegt markmið en fyrir mig er þetta stórmál enda hafði ég líklega ekki hlaupið svo langt í 25 ár – reyndar fundist ég vera í toppformi þegar ég náði að hlaupa fimm kílómetra með herkjum. En núna er sá tími kominn að ég treysti mér til að segja frá þessu og fyrst og fremst er það hvatningu Rakelar að þakka sem hefur drifið mig út á sunnudagsmorgnum til að hlaupa og anda og hlæja. Og hún hefur gert það að verkum að ég trúi því að ég geti þetta. Og ef ekkert óvænt gerist mun ég hlaupa þessa tíu kílómetra í ágúst.

Ætlar að styrkja Píeta með hlaupinu

Katrín þakkar Þórunni Rakel Gylfadóttur að mörgu leyti árangurinn en Þórunn hefur aðstoðað Katrínu við æfingarnar. 

Hún skráði sig á Hlaupastyrk og ætlar að styðja við Píeta-samtökin með hlaupinu. Hún segir þó að erfitt hafi verið að ákveða hvaða málefni hún ætti að styrkja.

Flest þekkjum við líklega einhvern sem hefur svipt sig lífi – og öll viljum við koma í veg fyrir sjálfsvíg og styðja eftir fremsta megni við þau sem ganga í gegnum slíkar hugsanir. Það er mikilvægt að ræða þessi mál – orsakir sjálfsvíga og áhrifin sem þau geta haft á þau sem eftir lifa. Tökum þau mál upp á borðið – það er fyrsta skrefið,“ skrifar Katrín. 

Hér er hægt að heita á Katrínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert