Vígahnötturinn líklega stærri en venjulega

Vígahnötturinn sást víða um land árið 2017.
Vígahnötturinn sást víða um land árið 2017. Ljósmynd/Twitter

Vígahnötturinn sem líklega sprakk yfir Íslandi í gærkvöldi var hugsanlega í 20 til 30 kílómetra hæð þegar hann sprakk. Miðað við lýsingar fólks á drunum sem heyrðust á Suðurlandi gæti hann hafa verið rúmur metri að þvermáli. Ef það er rétt var vígahnötturinn  heldur stærri en aðrir vígahnettir sem hafa sést hérlendis.

Þetta segir Sævar Helgi Bragason, sem er betur þekktur sem Stjörnu-Sævar. 

Hann bætir við að þetta séu samt mjög grófar ágiskanir byggðar á lýsingum.  

En hvað eru vígahnettir?

„Vígahnettir eru í raun og veru bara loftsteinar sem springa í andrúmsloftinu okkar í nokkurra tuga kílómetra hæð. Miðað við lýsingarnar sem bárust frá fólki í gær um það hvenær blossinn sást og hvenær drunurnar heyrðust bendir það til þess að hann hafi sprungið ef ég ætti að giska í kringum 20 kílómetra hæð eða svo, kannski tæplega 20 kílómetra hæð. En þetta er bara gróf ágiskun,“ segir Sævar.

Hærri drunur en vanalega

Hann segir vígahnöttinn heldur stærri en þá vígahnetti sem hafa sést hérlendis miðað við lýsingar sem Sævar hefur heyrt.

„Af einni annarri lýsingu að dæma, þar sem viðkomandi lýsir því að hafa fundið fyrir lítilli höggbylgju, hefur þessi vígahnöttur verið nokkrir metrar í þvermál, en það er bara mjög gróf ágiskun út frá þeim lýsingum sem ég hef heyrt núna. En því betri og nákvæmari lýsingar sem fólk sendir því betra.“

Sævar segir að það heyrist alls ekki alltaf svona háar drunur þegar vígahnettir springa í lofthjúpnum.

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason.

„Ég hef sjálfur séð afar marga vígahnetti en afar sjaldan heyrt áberandi drunur sem hafa fylgt þeim. Ég get sennilega talið þau skipti á fingrum annarrar handar.“

Vanalega á stærð við sandkorn

Hann segir að stjörnuhröp sem fólk kannast við verði vanalega í svona 80 til 100 km hæð og séu á stærð við sandkorn.

„Það er allur gangur á þessu en hefðbundin stjörnuhröp eru eins og lítil sandkorn, en bjartari stjörnuhröp eru frá því að vera á stærð við litla steinvölu eða jarðarber upp í kannski tennisbolta. En miðað við hvernig þetta virðist hafa gerst í gær þarf steinninn að vera talsvert stærri og þá erum við örugglega að tala um svona metra að þvermáli eða rúmlega það.“

Sævar bætir við að líklega hafi sést mikill blossi þegar steinninn sprakk en bjart var í gærkvöldi og birtan frá sólinni hefur dregið verulega úr sýnileika blossans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert