Aurskriðan féll ekki af mannavöldum

Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru …
Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Níu hús voru rýmd. Ljósmynd/Lögreglan

Búið er að komast að niðurstöðu um tildrög aurskriðunnar sem féll í Varmahlíð í síðustu viku og hæfði hús í bænum. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, segir við mbl.is að skriðan hafi fallið af náttúrunnar völdum.

Stórvirkar vinnuvélar voru á svæðinu og munduðu sig við drenlögn þegar skriðan féll. 

Sigfús segir þó að það tengist örsök skriðunnar ekki neitt, hún hafi ekki fallið af mannavöldum. Vitað hafi verið af vatnssöfnun í Varmahlíð og svo fór sem fór. 

„Við grófum margar holur þarna í hlíðinni til þess að sjá hvaðan vatnið væri að koma og fengum þarna sérfræðing frá ÍSOR með okkur til þess. Það fundust tvær uppsprettur, önnur virðist vera með köldu jarðvatni en hin með velgjuvatni, svona örlítill hiti á því. Þannig að þetta virðist vera af náttúrulegum örsökum, hvernig sem þetta er svo sem til komið,“ segir Sigfús. 

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verður ekki að skaðabótamáli

Sigfús segir að vitað hafi verið um jarðsig í garðinum fyrir ofan húsið sem skriðan féll á, strax síðasta vetur. Því voru fengnir sérfræðingar af verkfræðistofum og ofanflóðasviði Veðurstofu Íslands til að meta möguleika á því að aurskiða félli. 

„Það var ekki talin hætta á að þetta myndi fara. Það var ákveðið að aflétta rýmingu eftir það mat og ráðast í að veita vatninu í réttan farveg, en þegar vinnuvélar okkar koma svo á svæðið þá fer þetta. Og það er svo sem ekkert víst hvort að titringurinn frá beltagröfunni ýti þessu endanlega af stað eða hvort þetta sé tilviljun.“

Þar að auki segist Sigfús viss um að málið verði ekki að skaðabótamáli, íbúar hússins sem skriðan féll á munu fá tjón sitt bætt úr náttúruhamfaratryggingasjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert