Blönduðum hernaði beitt gegn vaxandi lúsmýi

Lúsmýið plagar Akureyringa. Það hefur einnig breytt úr sér víða …
Lúsmýið plagar Akureyringa. Það hefur einnig breytt úr sér víða annars staðar á landinu. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Lúsmý er sívaxandi vandamál á Akureyri en mýið fór að gera fyrst vart við sig í fyrrasumar. Meindýraeyðir á svæðinu segir að „blandaður hernaður“, þ.e. fjölbreyttar aðferðir til þess að takast á við mýið, hafi gefið besta raun. 

„Ég gæti alveg hugsað mér að vera án lúsmýsins, þótt ég hafi atvinnu af þessu,“ segir Árni Sveinbjörnsson, meindýraeyðir hjá Meindýravörnum MVE á Akureyri. 

„Þetta er vaxandi og byrjaði aðallega í fyrrasumar, fyrst í innbænum, hjá Skautahöllinni og í gamla bænum. Svo hefur þetta verið að breiðast út, upp á brekku í skjólsælli hverfum. Það er lítið hérna út með Eyjafirðinum en maður heyrir meira af því frammi í Eyjafirði.“

Ekkert eitt ráð öruggt

Aðspurður segir Árni nokkuð um það að fólk leiti til meindýraeyða og biðji um ráð við lúsmýinu. 

„Mín reynsla er sú að það er ekkert ráð sem er öruggt. Það er mjög gott að láta net í glugga, svo höfum við verið mikið með flugnabana sem eru með lími, fólk hefur verið mjög ánægt með það. Svo hafa menn notað úða. Ég held að í þessu sé blandaður hernaður bestur.“

Mikil hlýindi hafa verið á Norðurlandi það sem af er júlímánuði og fylgir lúsmýið hlýindunum.

„Það er ekki bæði hægt að halda og sleppa,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert