Brennir nú timbri og er að bregða búskap

Guðlaugur í Steinstúni við varðeldinn í fjörunni í Norðurfirði.
Guðlaugur í Steinstúni við varðeldinn í fjörunni í Norðurfirði. Ljósmynd/Einar Sveinbjörnsson

Viður úr gömlum úr útihúsum á bænum Steinstúni var eldiviður í bálkesti sem var tendraður í fjörunni í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum sl. laugardagskvöld.

Guðlaugur Agnar Ágústsson í Steinstúni er að bregða búskap og hefur vegna þess farið í tiltekt á staðnum. Timbur úr gömlu fjósi var tekið til og brennt þegar fólk kom saman í flæðarmálinu og skemmti sér og söng á fallegu sumarkvöldi. Þarna voru bæði heimafólk og ferðamenn.

„Já, ég er að flytja héðan,“ segir Guðlaugur í samtali við Morgunblaðið. „Ég er þreyttur á því að vegurinn hingað norður sé lokaður þrjá mánuði á ári og eins á bindingunni sem fylgir sauðfjárbúskap og umsjón með flugvellinum á Gjögri. Fer væntanlega á sjóinn, slíkt er eitt sem kemur til greina. Vélstjóraréttindin sem ég hef frá yngri árum upp á vasann koma sér vel.“

Um fimmtán manns höfðu síðasta vetur heimilisfesti í Norðurfirði og hefur fækkað umtalsvert á allra síðustu árum. „Eftir að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði var slegið á frest tel ég ekki miklar líkur á uppbyggingu hér. Ég ætla því að reyna fyrir mér annars staðar og hlakka til að takast á við ný viðfangsefni,“ segir Guðlaugur í Morgunblaðinu í dag. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »