Margir bitnir síðustu daga

Lúsmý. Fáum líkar þessi gestur.
Lúsmý. Fáum líkar þessi gestur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svo virðist sem margir hafi verið bitnir af lúsmýi síðustu daga, að sögn Matthíasar Alfreðssonar, skordýrafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Ég held að það fari ekki framhjá neinum,“ segir Matthías í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is. 

„Fyrstu tilkynningar voru að berast NÍ um miðjan júní og síðan fór allt á fullt í byrjun júlí,“ segir Matthías. „Ég get ekki sagt að það sé í meiri fjölda á einhverjum ákveðnum stöðum. Lúsmý má finna víða um landið.“

Velkomið að senda eintök til Náttúrufræðistofnunar

Náttúrufræðistofnun hefur ekki heyrt af lúsmýi á Vestfjörðum, Norðaustur- og Austurlandi né fengið eintök þaðan.

„Það má endilega senda eintök eða tilkynningar til Náttúrufræðistofnunar Íslands ef það telur sig hafa vera bitið af lúsmýi á þessum svæðum,“ segir Matthías.

Hvernig er fylgst með lúsmýinu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands?

„Eitt af hlutverkum NÍ er að kortleggja útbreiðslu tegunda og byggja upp gagnagrunna yfir íslenskar tegundir lífvera. Tilkynningar sem okkur berast eru skráðar og þau eintök sem við fáum eru tegundagreind, skráð í gagnagrunn og varðveitt í safni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert