„Hjartað er báðum megin“

Samsett mynd sem sýnir stuðningsmenn Dana (til vinstri) og Englendinga …
Samsett mynd sem sýnir stuðningsmenn Dana (til vinstri) og Englendinga í góðu stuði. AFP

Sendiherrar Íslands í Lundúnum annars vegar og Kaupmannahöfn hins vegar segja að stemningin í borgunum sé spennuþrungin fyrir leik Englands gegn Danmörku í undanúrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu sem fram fer í kvöld. 

Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í Lundúnum, segist finna vel fyrir áhuga borgarbúa á leiknum. 

„Maður verður mjög mikið var við það í fjölmiðlum og tali fólks hvað verður mikið horft á þennan leik í kvöld og fylgst með honum hjá Englendingum í von um að halda áfram,“ segir Sturla og bætir við;

„Maður sér það líka á veitingastöðum, ég fór út áðan og sá að þeir eru margir að gíra sig upp í hressileg viðskipti í kvöld. Ég sá einhvers staðar að dagblaðið Independent hafi einhvern veginn reiknað það út að það verði seldir um 50 þúsund bjórar á mínútu meðan á leik stendur.“ 

Sturla Sigurjónsson og Helga Hauksdóttir.
Sturla Sigurjónsson og Helga Hauksdóttir. Samsett mynd

Sturla segist ekki geta gert upp á milli liðanna tveggja. 

„Það er erfitt fyrir okkur hjá sendiráðinu að halda með einu liði fremur en öðru. Fyrir mitt leyti var ég sendiherra í Danmörku líka þannig að hjartað er báðum megin og svo leigjum við hérna í húsi sendiráðs Danmerkur þannig að þeir eru okkar næstu nágrannar. Við verðum mjög vör við hvað starfsfólk danska sendiráðsins er spennt,“ segir Sturla. 

Ætlið þið kannski að fylgjast með leiknum með kollegum ykkar úr danska sendiráðinu?

„Nei, reyndar ekki,“ segir Sturla og hlær. „Ætli þeir verði ekki einhverjir á vellinum sjálfum, ég reikna nú með því. En það munu allir fylgjast með þessu,“ bætir hann við. 

Glymur í húsum þegar Danir skora

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, segir Dani fylgjast grannt með gangi máli á Evrópumótinu. Hún fylgist sjálf ekki mikið með knattspyrnu, en telur að atvikið í fyrsta leik Dana á mótinu, þegar Christian Eriksen fór í hjartastopp og var endurlífgaður á Parken-vellinum, hafi e.t.v. aukið áhuga á danska landsliðinu. 

„Ég held að það sem gerðist í fyrsta leiknum sem Danir spiluðu með Christian Eriksen, hafi kannski þjappað dönsku þjóðinni enn frekar saman í kringum danska landsliðið. Þetta hefur eflaust verið liðinu mikil hvatning og það er mikill spenningur hjá þjóðinni,“ segir Helga. 

Leikurinn í kvöld hafi farið fram hjá fáum. 

„Ég hef séð það síðustu daga að fólk er mikið í landsliðsbúningum og skreytt með danska fánanum. Ég sé það líka víða að danski fáninn er hengdur út um glugga og fær að vera þar sem er óvenjulegt hjá dönsku þjóðinni – þeir nota flaggið sitt heilmikið í kringum afmælisdaga og svona, en þetta er nýtt. Svo hlýtur fólk að krossa fingur og vona það besta fyrir kvöldið,“ segir Helga og bætir við;

„Leikirnir hafa verið sýndir á allavega tveimur stöðum hérna í Kaupmannahöfn. Ég hef verið utandyra þegar Danir eru að skora mörk og maður heyrir að það glymur í öllum húsum, fólk er líka duglegt að safnast saman í heimahúsum og horfa á leikina.“

Helga segist hafa komið sjálfri sér á óvart í veðmálaleik sendiráðsins; 

„Við höfum verið að tippa á úrslitin hérna í sendiráðinu. Eftir riðlakeppnina var ég efst sem mér sjálfri þótti mjög athyglisvert, en svo hefur gengi mitt orðið verra með tímanum. Ég hef engar væntingar um að vinna þetta,“ segir Helga. 

En hvoru liðinu spáir þú sigri í kvöld? 

„Báðar þjóðir eru vinaþjóðir og ég mun fagna hvorum sigrinum sem er,“ segir Helga eins og sannur diplómati. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert