Init hafi brotið samning við Reiknistofu

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Reiknistofu lífeyrissjóða.
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Reiknistofu lífeyrissjóða. mbl.is/Styrmir Kári

Samkvæmt úttekt sem Ernst & Young gerði á samningi á milli Reiknistofu lífeyrissjóða og Init ehf. um rekstur hugbúnaðarkerfisins Jóakims braut Init samninga við Reiknistofu.

Þar vegur þyngst viðskiptasamband Init við undirverktaka án heimildar Reiknistofu lífeyrissjóða, annars vegar við félag með sama eignarhald og hins vegar við nokkur félög í eigu stjórnenda Init. Samkvæmt Ernst & Young er ekki að sjá að eðlilegur rekstrartilgangur hafi að öllu leyti legið þar að baki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reiknistofu.  

Ernst & Young var ráðið til að gera úttekt á viðskiptum við fyrirtækið eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks á RÚV í apríl.

Skoða að grípa til aðgerða

Stjórn Reiknistofu lífeyrissjóða mun á næstu vikum fara ítarlega yfir niðurstöður úttektarinnar og skoða hvort gripið verði til aðgerða á grunni þeirra.

Ernst & Young benda auk þess á að gjaldskrá fyrir þjónustu Init hafi verið ógegnsæ og að viðskipti Init við félög tengd eigendum þess hafi flækt reikningsskil félagsins og haft áhrif á birta afkomu þess.

Reiknistofa lífeyrissjóða sagði upp samningum við Init í lok maímánaðar. Fram kemur í tilkynningunni að ekki komi til greina af hálfu stjórnar Reiknistofu að gera nýjan samning um rekstur og þjónustu Jóakims á svipuðum grunni eða forsendum og sá samningur sem nú hefur verið sagt upp.

Skort hafi eftirfylgni

Í úttektinni kemur enn fremur fram að eftirfylgni hafi skort af hálfu Reiknistofu hvað varðar ýmis atriði síðustu árin.

Stjórn Reiknistofu segist taka slíkar ábendingar alvarlega og muni fara gaumgæfilega yfir ábendingar Ernst & Young í þeim efnum og tryggja að slíkt endurtaki sig ekki.

Lögð verður áhersla á áframhaldandi rekstur Jóakim-kerfisins þar til ný útgáfa eða kerfi leysir það eldra af hólmi, en það er mikilvægt starfsemi þeirra lífeyrissjóða sem eiga aðild að Reiknistofu lífeyrissjóða og að auki mikilvægur innviður fyrir aðra notendur kerfisins.

mbl.is