Lengsta goshlé frá upphafi

Eldgosið í Geldingadal.
Eldgosið í Geldingadal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Órói í eldgosinu í Geldingadölum hefur verið í dvala síðan á mánudagskvöld. Um er að ræða lengsta goshlé frá upphafi eldgossins. 

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að óróinn hafi hætt skyndilega um klukkan 23 á mánudagskvöld.

„Óróinn er búinn að vera niðri síðan rétt fyrir miðnætti 5. júlí. Þetta er lengsta bil sem við höfum séð,“ segir Lovísa og bætir við að einhver hreyfing virðist nú vera að koma á gosóróann: 

Þetta er svona hægt og rólega að koma upp aftur svo það er spurning hvort það komi annar púls núna.

Óróarit Veðurstofu Íslands sýnir hvernig gosóróinn hætti skyndilega skömmu fyrir …
Óróarit Veðurstofu Íslands sýnir hvernig gosóróinn hætti skyndilega skömmu fyrir miðnætti á mánudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Flæðið leitar annað 

Nýr taktur í gosinu fór að myndast um 28. júní. Tvö lengri goshlé sem hafa orðið síðan þá vörðu í um það bil sextán klukkustundir. 

„Núna er þetta búið að vera svona síðan 28. júní, þá byrjaði þetta að fara svona upp og niður og síðan hefur bilið alltaf verið að aukast og aukast. Það er enn þá flæði að koma, en bara ekki úr gígnum sjálfum. Það er eitthvað í gangi en það virðist ekki koma úr gígnum þegar óróinn fellur svona niður,“ segir Lovísa. 

mbl.is