Þurfa líklega ekki að endurtaka kandídatsárið

„Markmið næstu mánaða er að eyða óvissunni varðandi þá sem …
„Markmið næstu mánaða er að eyða óvissunni varðandi þá sem tóku kandídatsárið í gamla fyrirkomulaginu,“ segir Árni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskir sérnámslæknar sem útlit var fyrir að þyrftu að endurtaka kandídatsárið í Noregi ættu að geta andað léttar miðað við fréttir af breyttum viðmiðum Norðmannanna. mbl.is greindi frá því fyrr á árinu að íslenskir sérnámslæknar sem stunda nám í Noregi sæju fram á að þurfa að end­ur­taka kandí­dats­árið vegna breyt­inga á skipu­lagi lækn­is­náms þar í landi.

Norskir fjölmiðlar greindu frá því fyrir helgi að læknanemar innan Evrópusambandsins og EES sem hafa farið í gegnum starfsnám, t.d. kandídatsár, þurfi ekki að taka svokallaðan sérnámsgrunn, sem er sambærilegur kandídatsári, við upphaf sérnáms. Var ákvörðunin tekin vegna norskra læknanema sem lærðu í Danmörku og lentu í sambærilegum vandræðum og íslensku sérnámslæknarnir.

Ættu að meta íslenska kandídatsárið líka

Skipu­lagi náms í lækn­is­fræði í Nor­egi var breytt árið 2019 þannig að lækna­nem­ar fá nú fullt lækn­inga­leyfi eft­ir sex ára há­skóla­nám. Sér­námið hefst svo á átján mánaða sérnámsgrunni, sem kallaður er LIS1. Hann er sambærilegur ís­lensku kandí­dats­ár en sex mánuðum lengri. Áður höfðu norsk­ir lækna­nem­ar fengið lækna­leyfi sitt eft­ir sex ára nám og átján mánaða „turn­us“, sem var talið sam­bæri­legt ís­lensku kandí­dats­ári. Því komust lækna­nem­ar frá Íslandi beint inn í sér­námið hér áður fyrr, án þess að þurfa að end­ur­taka kandí­dats­árið.

Í apríl greindi mbl.is svo frá því að kandí­dats­árið, og þar með kandí­dat­ar, heyri sög­unni til með reglu­gerðarbreyt­ingu sem hef­ur öðlast gildi. Með breytingunni öðlast lækna­nem­ar lækn­inga­leyfi eft­ir sex ára nám, í stað sex ára náms auk kandí­dats­árs. Í stað þess kem­ur sér­náms­grunn­ur, starfs­nám sem tekið er á víðu sviði í upp­hafi sér­náms.

Fréttirnar í Noregi snú að því að Norðmenn ætli að taka danska kandídatsárið, KBU, gilt sem sérnámsgrunn.

„Ef KBU er metið úti þá ætti klárlega að meta gamla íslenska kandídatsárið líka,“ segir Árni Johnsen, formaður Félags almennra lækna, í samtali við mbl.is.

„Næsta haust fara fram viðræður á milli nefndarinnar sem sér um að skipuleggja kandídatsárið og sérnámsgrunninn hérna heima og sambærilegra mótaðila í Noregi og Svíþjóð um það nákvæmlega hvernig eigi að hátta málum þeirra sem kláruðu gamla kandídatsárið.“

Markmið næstu mánaða að eyða óvissunni

Markmiðið er að ná skýrri og skriflegri niðurstöðu um það hvenig eigi að meta bæði sérnámsgrunninn og kandídatsárið.

„Markmið næstu mánaða er að eyða óvissunni varðandi þá sem tóku kandídatsárið í gamla fyrirkomulaginu,“ segir Árni.

Er þá útlit fyrir að þau sem óttuðust að þurfa að endurtaka kandídatsárið muni ekki þurfa að gera það?

„Alla vega ekki að taka alla 18 mánuðina. Norska LIS1 árið er 18 mánaða langt en gamla kandídatsárið er 12 mánaða langt. Gamla KBU, danska kandídatsárið, var einu sinni 18 mánuðir en mér skilst að það sé núna 12 mánuðir. Það kæmi mér mjög á óvart ef þeir myndu meta 12 mánaða kandídatsár sem 18 mánaða LIS1. Að þau muni meta þessa 12 mánuði af kandídatsárinu sem 12 mánuði af LIS1 held ég að gæti vel gerst. Vonandi verður það þannig,“ segir Árni.

Ákváðu að geyma viðræðurnar fyrir haustið

Hann kveðst ánægður með það að náminu hér heima hafi verið breytt svo að það rími betur við ný viðmið í Noregi og Svíþjóð.

 „Það var mjög ánægjulegt hvað reglunum var breytt fljótt og óvissunni eytt fyrir þann hóp sem var að útskrifast úr læknisfræði núna síðasta vor.“

Spurður hvort það sé ekki mikilvægt að fá endanlega niðurstöðu í málið áður en nýtt skólaár hefst bendir Árni á að fólk hefji sérnám á öllum árstímum.

„Íslenski hópurinn ákvað að fara ekki út í umræður [um mat á íslenska kandídatsárinu] í sumar þegar allir eru í sumarleyfum og það væri erfitt að undirbúa þetta vel og ná á rétta fólkið, heldur að geyma fram að næsta hausti svo að þetta sé vel undirbúið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert