Stærsti vinningur sögunnar greiddur út á morgun

Vinningurinn verður blessunarlega ekki greiddur út í seðlum og klinki …
Vinningurinn verður blessunarlega ekki greiddur út í seðlum og klinki heldur með millifærslu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stærsti vinningur Íslenskrar getspár frá upphafi verður greiddur út á morgun. Þetta staðfestir Halldóra María Einarsdóttir, markaðsstjóri Íslenskrar getspár, í samtali við mbl.is.

Fyrir um það bil mánuði greindi mbl.is frá því að maður hefði unnið stærsta lottóvinning Íslandssögunnar. Nú er komið að því að hann fái peninginn lagðan inn á reikning sinn en vinningurinn verður blessunarlega ekki greiddur út með seðlum og klinki.

„Jú, nú eru liðnar fjórar vikur frá því það var dregið, þannig að það er komið að því að greiða út vinninginn,“ segir Halldóra, en það líða alltaf fjórar vikur frá drætti þar til vinningsupphæðin er greidd út, með millifærslu og skattfrjálst.

Bankareikningur mannsins mun því á morgun, föstudag, hækka um rúma 1,2 milljarða íslenskra króna á einu sekúndubroti og líf hans breytast til frambúðar.

Fólk gæti eflaust hugsað sér verri leiðir til þess að byrja aðra helgi júlímánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert