Styttri vinnuvika valdi ekki manneklu

Stytting vinnuvikunnar var hluti af lífskjarasamningunum.
Stytting vinnuvikunnar var hluti af lífskjarasamningunum. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölmiðlar erlendis hafa sýnt skýrslu Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, mikinn áhuga. Skýrslan fjallar um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og ríkisins um styttingu vinnuviku frá 2015 til 2019 og var unnin í samstarfi við bresku hugveituna Autonomy. 

Annar höfunda skýrslunnar, Guðmundur D. Haraldsson, álítur styttingu vinnuvikunnar ekki orsakavald manneklu í vaktavinnustéttum.

Ásamt því að vera höfundur skýrslunnar er Guðmundur stjórnarmaður í Öldu en hann segir símann vart hafa stoppað fyrstu daganna, það sé þó aðeins farið að róast núna. Meðal þeirra miðla sem fjölluðu um málið voru BBC, Washington Post, Independent, Sky News og Esquire í Mið-Austurlöndum svo nokkrir séu nefndir.

86% með ákvæði um styttinguna

Í fréttum erlendra miðla er tilraunaverkefnið lofsungið og gjarnan kallað fjögurra daga vinnuvikan. Í kjölfar verkefnisins var stytting vinnuvikunnar innleidd í flesta kjarasamninga íslenskra launþega en 86% þeirra eru nú með ákvæði í samningnum um styttingu vinnuvikunnar. Þá oftast úr 40 stundum á viku niður í 35 eða 36.

Niðurstaða skýrslunnar var sú að stytting vinnuvikunnar hefði minnkað streitu hjá starfsfólki og fyrirbyggt kulnun í starfi. Þá hafi styttingin haft jákvæð áhrif á samspil vinnu og einkalífs starfsfólks.

Oft langvarandi mönnunarvandamál

Innleiðing styttri vinnuviku hefur þó sætt nokkurri gagnrýni hérlendis og þá sérstaklega í tilfelli vaktavinnustétta. Guðmundur segir verkefnið umfangsmikið og margt sem kunni að búa að baki slíkum vaxtarverkjum:

„Okkar skýrsla fjallar aðallega um tilraunaverkefnið en það er svolítið annar handleggur þegar þetta er innleitt á stórum skala. Allar breytingar kosta erfiði. Það fylgir yfirleitt fréttum sem þessum að það hafi verið mönnunarvandamál lengi áður en vinnuvikan var stytt.

Þess vegna held ég að þetta sé ekki alltaf bein orsök styttingar vinnuvikunnar heldur hafi stundum verið erfitt að manna stöður í þessum stéttum. Það er ríkisins og sveitarfélaganna að bæta vinnuaðstæður fólks og aðra þætti svo fólk vilji vinna í þessum stéttum,“ segir Guðmundur.

Næst á dagskrá hjá Öldu er verkefnið Lýðræðisleiðin sem fjallar um auðlindir og hvernig sé best skipta þeim auðnum af þeim.

mbl.is