Þrír Íslendingar með stóra lottóvinninga

Einn var með allar réttar á laugardaginn.
Einn var með allar réttar á laugardaginn. mbl.is/Golli

Íslendingar hafa heldur betur haft heppnina með sér undanfarna daga en þrír lottóvinningar gengu út í síðustu viku. Allir fóru þeir til áskrifenda samkvæmt upplýsingum frá Halldóru Maríu Einarsdóttur, markaðsstjóra Íslenskrar getspár.

Enn að melta fréttirnar

Stálheppinn íslenskur karlmaður á miðjum aldri af landsbyggðinni var einn af sjö vinningshöfum annars vinnings í Eurojackpot 9. júlí og fékk upp úr krafsinu rúmlega 39,5 milljónir. Hinir sex miðarnir voru keyptir í Svíþjóð, Finnlandi, Spáni og þrír í Þýskalandi.

„Hann ætlar að gera sér ferð í bæinn á næstunni til að sækja vinninginn. Hann virtist himinlifandi að heyra að hann hefði unnið þegar við hringdum í hann í morgun. Hann virtist ekki vera búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera við peninginn þegar við töluðum við hann en hann er sennilega ennþá bara að melta fréttirnar,“ segir Halldóra.

Yfir sig ánægð

Það var svo heppinn miðahafi sem var einn með allar tölur réttar í laugardagslottóinu 10. júlí og fær fyrir það rúmar 10,1 milljón króna í sinn hlut.

„Það var kona á miðjum aldri á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að hún hafi ekki vitað það að hún hafi unnið fyrr en við tilkynntum henni það símleiðis í morgun. Hún var bara yfir sig ánægð með það eins og gefur að skilja. Ég held hún sé bara væntanleg síðar í dag eða einhvern tímann í vikunni til að sækja vinninginn.“

Fær tvær milljónir lagðar inn á sig

Þá var einn áskrifandi með allar tölur réttar í réttri röð í Jóker í laugardagslottóinu sama dag og fær því 2 milljónir króna í sinn hlut.

„Sá var karlmaður rétt um þrítugt en hann var líka í áskrift. Vinningurinn verður bara lagður inn á hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert