Blekkingar um breytingar á stjórnarskrá

Það er blekking að halda því fram að til hafi staðið að gerbreyta stjórnarskránni í einu vetfangi. Það eigi við nú sem fyrr, segir Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur í viðtali í Dagmálum í dag, þar sem stjórnarskráin heimili einfaldlega ekki slíkar breytingar. „Stjórnmálamaður, sem heldur því fram að hann ætli að fara að lögfesta tillögur stjórnlagaráðs, hann getur ekki gert það, hann getur ekki efnt það kosningaloforð.“

Kristrún segir að almenningur hafi verið blekktur þegar boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingartillögur stjórnlagaráðs, því þá þegar höfðu þær tekið miklum breytingum í meðförum þingsins og héldu raunar áfram að breytast eftir atkvæðagreiðsluna.

Hún telur að Alþingi þurfi að læra af því ferli, sem stjórnarskrárbreytingar upp úr bankahruni fóru í, hvernig því var þrýst áfram og hvernig það strandaði á hátt sem ekki er hægt að bjóða almenningi upp á. Það hafi verið blekkingarleikur.

Grein um stjórnarskrármálin

Kristrún skrifaði grein í nýjasta tölublaði Tímarits lögfræðinga, sem mikla athygli hefur vakið, en þar fjallar hún um breytingarreglu stjórnarskrárinnar; fyrirmæli í stjórnarskránni sjálfri um það hvernig henni skuli breytt með löglegum hætti. Hún segir enga tilviljun hvernig búið er um þá hnúta, afar mikilvægt sé að ekki sé hægt að breyta grunnlögunum í einu vetfangi eða af einum aðila.

Kristrún telur að vinnubrögðin við fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar hafi ekki verið til fyrirmyndar, handahófskennd, áhættusöm og til óvissu fallin. Umræðan nú sé því enn á miklum villigötum og á misskilningi byggð.

Dagmál eru streymi Morgunblaðsins, opin öllum áskrifendum, en þau má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert