Haraldur segist líka munu borga fyrir miskabætur

Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno.
Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno. mbl.is/Golli

Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og starfsmaður Twitter, greinir frá því að hann hyggist borga allan málskostnað þeirra sem kærðir verða og/eða dæmdir vegna ásakana í garð Ingólfs Þórarinssonar um kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni.

Fram kom í gær að Ingólfur hefði sent út fimm kröfubréf vegna málsins, en Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður gætir hagsmuna hans í málinu.

Greiði fyrir 19. júlí

Áður hafði Haraldur lofað því að greiða lögfræðikostnað þeirra sem Ingólfur kann að lögsækja, en tók í dag allan vafa af um að hann myndi einnig hlaupa undir bagga varðandi miskabætur, verði kveðið á um þær.

Kristlín Dís Ingilínardóttir, blaðamaður Fréttablaðsins, greindi frá því í dag að Ingólfur hefði krafist þriggja milljóna króna í miskabætur sem skyldi greiða fyrir 19. júlí.

Undrast viðbrögðin

Haraldur segist í færslu sinni á Twitter undrandi á viðbrögðunum við upprunalegu færslunni. Hann segir athyglina frekar eiga að beinast að þolendum en honum sjálfum og hefur þess vegna ekki veitt viðtöl í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert