Versti tími til að breyta stjórnarskrá

Stjórnlagaráð fór út fyrir umboð sitt, sem Alþingi veitti því, segir Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins. Stjórnlagaráð hafi aðeins átt að vera ráðgefandi og því hafi ekki verið falið að skrifa nýja stjórnarskrá frá upphafi til enda. Við bankahrunið hafi tiltekið aðilar skynjað aðstæður, sem gáfu tækifæri til stjórnarskrárbreytinga. 

„Tækifæri fyrir sig og sinn hóp, skulum við segja, eða skoðanasystkin eða skoðanaleiðtoga,“ segir Kristrún.

Það telur hún hafa verið einstaklega óheppilegt. „Ég held að það sé algerlega ljóst – ég held að allir sem þekkja söguna, hafa sagnfræðilega þekkingu á sögu Evrópu, segjum – [viðurkenni] að fjármálakreppa er versti tímapunktur til að breyta stjórnarskrá sem hugsast getur.“

Kristrún kveðst ekki vilja gagnrýna þá sem sátu í stjórnlagaráði, þeir hafi bara skilað sínu verki. Ábyrgðin hafi eftir sem áður verið hjá Alþingi, því samkvæmt stjórnarskránni sjálfri sé það aðeins á þess valdi að breyta stjórnarskránni og ekki aðeins eitt þing, heldur þurfi Alþingi að samþykkja breytingar tvisvar með þingkosningum á milli, svo vilji til þess að breyta grunnlögum landsins sé ótvíræður. 

Grein um stjórnarskrármálin

Kristrún skrifaði grein í nýjasta tölublaði Tímarits lögfræðinga, sem mikla athygli hefur vakið, en þar fjallar hún um breytingarreglu stjórnarskrárinnar; fyrirmæli í stjórnarskránni sjálfri um það hvernig henni skuli breytt með löglegum hætti. Hún segir enga tilviljun hvernig búið er um þá hnúta, afar mikilvægt sé að ekki sé hægt að breyta grunnlögunum í einu vetfangi eða af einum aðila.

Kristrún telur að vinnubrögðin við fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar hafi ekki verið til fyrirmyndar, handahófskennd, áhættusöm og til óvissu fallin. Umræðan nú sé því enn á miklum villigötum og á misskilningi byggð.

Dagmál eru streymi Morgunblaðsins, opin öllum áskrifendum, en þau má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert