Eftirköstin gengu til baka að ári liðnu

Margrét Gauja Magnúsdóttir er orðin stálslegin eftir að hafa glímt …
Margrét Gauja Magnúsdóttir er orðin stálslegin eftir að hafa glímt við mikil eftirköst Covid-19. mbl.is

„Ég var alveg að missa vonina á tímabili en gerði það sem betur fer ekki,“ segir Margrét Gauja Magnúsdóttir, sem glímdi mánuðum saman við aukaverkanir eftir að hafa smitast af Covid-19 í mars á síðasta ári.

Það varð ekki fyrr en fyrir tveimur mánuðum sem Margrét fékk heilsuna aftur en það gerðist þó ekki í kjölfar bólusetningar, líkt og raunin hefur verið hjá einhverjum.

Hvernig gerðist þetta?

„Mér var bara ráðlagt að passa upp á svefninn og bíða þetta af mér, vanda mig. Ég var hjá sjúkraþjálfurum og fleirum sem voru að kenna svona ADHD-píu eins og mér orkustjórnun. Ég þurfti að fara í gagngerar lífsstílsbreytingar sem voru, eftir á að hyggja, bara nauðsynlegar og góðar,“ segir Margrét.

„Nú er ég sjósundsóð“

Eftir að hafa smitast glímdi hún við máttleysi, minnisleysi og svima og fór í fjögurra mánaða veikindaleyfi í kjölfarið. „Ég var með einkenni sem lýstu sér þannig að ef ég gerði eitthvað vaknaði ég daginn eftir eins og ég hefði farið bara „all in“ á Þjóðhátíð í Eyjum. Það var alltaf einhver ósýnileg lína sem ég fór yfir, og eftir á að hyggja skipti engu máli hvort það var líkamleg eða andleg áreynsla, ég vaknaði alltaf daginn eftir í döðlu. Þetta var bara ótrúlega erfitt.“

Núna lítur staðan mun betur út; frá 30. maí hefur hún farið tólf sinnum að eldgosinu í Geldingadölum, gengið upp á Fimmvörðuháls og stundað leiðsögumennsku þess á milli. „Eftir tólf mánuði af þessum veikindum er ég núna allavega búin að eiga stórkostlega tvo mánuði,“ segir hún.

Leið þér betur eftir bólusetninguna?

„Nei, ég var byrjuð að finna fyrir framförum áður en ég fór í bólusetninguna. Það var ótrúlega erfitt fyrir mig að fara í bólusetningu því ég var svo hrædd um að hún myndi henda mér aftur á bak og ég myndi finna aftur fyrir einkennunum. En hún gerði það ekki. Ég var bara slöpp í nokkra klukkutíma og síðan var þetta bara búið.“

Margrét hefur verið dugleg að stunda hreyfingu á borð við göngur og sjósund en hún segir það einnig hafa hjálpað henni að vera inni í alþjóðlegum Covid-hópi á Facebook, þar sem hún sá einn meðlim mæla með kælinámskeiði. „Ég skellti mér á slíkt og fann að það hjálpaði mér alveg svakalega, svo nú er ég sjósundsóð,“ segir Margrét létt í bragði.

mbl.is