Hraunið gleypti mælitækin næst gígnum

Mælistöðin var þar sem rautt X er merkt inn á …
Mælistöðin var þar sem rautt X er merkt inn á myndina. Hraunið gleypti hana líklega á mánudaginn var. Tjónið hleypur á milljónum. Ljósmynd/Halldór Geirsson

GPS-stöð Jarðvísindastofnunar HÍ og jarðskjálftamælir Veðurstofunnar urðu hraunstraumi frá gígnum í Geldingadölum að bráð. Tækin voru um 15 metra uppi í hlíð um 500 metra beint austur af gígnum. Hæðin lokaðist tiltölulega fljótt af vegna hraunflæðis.

Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur og dósent við HÍ, sagði að þessi staðsetning hefði talist tiltölulega örugg. „En þegar hraunflæðið beindist allt niður í Meradali þá breyttist þetta mjög hratt. Hraunið hefur nú víða runnið yfir þennan háls,“ sagði Halldór.

Allt leit þetta vel út á sunnudag í vefmyndavél. Hraunið fór svo að fikra sig nær á sunnudagskvöld. Fjarskiptabúnaður stöðvanna bilaði fyrir um tíu dögum og átti að laga hann. Á mánudag sást að hraunið var komið mjög nærri stöðvunum og var þá ákveðið að reyna að bjarga þeim. Farið var með þyrlu eftir hádegi á þriðjudag á staðinn en þá voru stöðvarnar komnar undir hraun. Halldór sagði það hafa komið á óvart hvað hraunið hækkaði hratt. Tjónið nemur nokkrum milljónum króna.

„Það er töluvert af mælistöðvum í nágrenninu en þessi stöð var næst gígunum,“ sagði Halldór. „GPS-stöðin mældi sig sem hefur orðið samfara gosinu mjög vel. Hún var búin að síga um fjóra sentimetra frá því að gosið hófst og þar til hún datt út. Sigið er líklega að mestu vegna þess að kvika er að fara úr jarðskorpunni.“

Stöðin nýttist einnig mjög vel þegar ný gosop opnuðust. Við hvert gosop myndaðist lítill gangur í efstu 200-300 metrunum út frá stóra kvikuganginum sem myndaðist í mars. Þetta var eina síritandi stöðin sem náði því merki. Nú er til skoðunar að setja fleiri svona stöðvar á hæðir í kringum gíginn. Eitt af hraunrennslislíkönunum sem gerð voru tiltölulega snemma í eldgosinu spáði því að hraun gæti einhvern tíma runnið um þetta skarð.

Um var að ræða jarðskjálftamæli frá Veðurstofunni og GPSmæli frá …
Um var að ræða jarðskjálftamæli frá Veðurstofunni og GPSmæli frá Jarðvísindastofnun HÍ sem mældi hreyfingar yfirborðsins. Ljósmynd/Halldór Geirsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert