„Ömurlegt að vera útlendingur í íslensku samfélagi“

Wiktoria Joanna Ginter.
Wiktoria Joanna Ginter. Ljósmynd/Julie Rowland

Wiktoria Joanna Ginter hefur búið á Íslandi í fjórtán ár. Hún flutti hingað árið 2007 því hún varð ástfangin af landinu, náttúru þess og fólkinu. „Allir voru vinalegir við útlendinga, allt var öðruvísi.“

Að sögn Wiktoriu var atvinnutilboð til hennar nýlega dregið til baka sökum þess að væntanlegir íslenskir undirmenn hennar vildu ekki útlending sem yfirmann.

Í samtali við mbl.is segir Wiktoria að viðmót Íslendinga gagnvart útlendingum hafi breyst til hins verra frá því hún kom fyrst til landsins. Frá árinu 2016 sé búið að vera „hreinlega ömurlegt að vera útlendingur í íslensku samfélagi.“

Útsett fyrir fordómum

Wiktoria segir að þegar hún flutti hingað hafi aðeins verið um 3.000 Pólverjar á Íslandi og lítið um ferðamenn. Íslendingar hafi verið spenntir að kynnast fólki frá öðrum menningarheimum.

Árið 2010 þegar ferðaþjónustan fór að vaxa segir Wiktoria að fleiri Pólverjar hafi flutt til landsins, margir ómenntaðir og svo hafi einnig komið hingað óprúttnir aðilar í ólöglegum tilgangi.

Það hafi skapað fordóma gagnvart Pólverjum sem svo hafi undið upp á sig. Hún bendir á að það eitt að hún tali íslensku með pólskum áherslum valdi því að hún sé útsett fyrir fordómum í beinum samskiptum við fólk.

„Íslendingar líta á sig sem samfélag sem tekur öllum opnum örmum en það er ekki satt,“ bætir hún við.

Fékk ekki vinnu í takt við menntun

Wiktoria er með háskólagráðu í alþjóðlegum viðskiptum með markaðsfræði sem aukagrein. Þegar hún kom til Íslands gat hún þó ekki fengið starf sem sæmdi hennar menntun og fór að vinna við þrif. Hún starfaði svo á bar í tíu ár auk þess sem hún hefur unnið mikið með tónlist. Til hliðar hefur hún sinnt umboðsmennsku fyrir hljómsveitir á Íslandi og í útlöndum og hélt sína eigin tónlistarhátíð.

Fyrir tíma heimsfaraldursins starfaði hún sem veitingastjóri en fór svo yfir í umönnun hjá Reykjavíkurborg, sem hún sagði upp nýverið því það leit út fyrir að hún fengi stöðu veitingastjóra á Edition Marriott hótelinu sem rís nú í Reykjavík.

Edition-hótel Marriott keðjunnar í byggingu.
Edition-hótel Marriott keðjunnar í byggingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilboðið stóð ekki lengur til boða

Í stöðufærslu á facebook-síðu sinni greinir hún frá því að hafa farið í gegnum viðamikið ráðningaferli þar sem hún hafi hlotið hæstu einkunn meðal umsækjenda og afbragðs meðmæli.

Hún hafi í framhaldi verið í beinum samskiptum við verðandi yfirmann sinn og bæði tvö hlakkað til samstarfsins. Þau hafi svo rætt kjör og Wiktoria segist hafa komið til móts við hótelið í launavæntingum í ljósi þess höggs sem ferðamannaiðnaðurinn hefur mátt þola.

Wiktoria fékk svo í hendurnar drög að ráðningarsamningi frá mannauðsdeild Marriott á Íslandi og segist hafa verið brugðið, enda hafi hann ekki verið samhljóða því sem hún hafi rætt um við verðandi yfirmann sinn.

Til að mynda var ekki gert ráð fyrir að greiða yfirvinnu að hennar sögn. Wiktoria vildi semja á annan hátt en var þá tjáð að tilboðið stæði ekki lengur.

Vilja ekki vinna fyrir útlending

„Hann sagði að þetta væri mikil pólitík innan vinnustaðarins, íslenska starfsfólkið væri ekki hrifið af því að fólk frá öðrum löndum væru í yfirmannsstöðum,“ segir Wiktoria.

Í facebook-færslu sinni greinir hún frá því að sér hafi verið sagt að kokkateymið, þar á meðal kokkurinn sem hannaði matseðilinn og íslenska mannauðsdeildin hafi ekki viljað fá hana í þessa stöðu vegna þess að hún væri ekki Íslendingur.

„Vinkona mín sótti líka um stjórnendastöðu hjá þeim yfir herbergisþrifum. Hún er vel menntuð og reynd á því sviði og átti að fá að skrifa undir samning, þar til málið var sent íslensku mannauðsdeildinni og hún heyrði ekki meira frá þeim.“

Barnavernd kölluð til því hún talaði ekki íslensku heima

Wiktoria segir að hindranir útlendinga einskorðist ekki við íslenska vinnumarkaðinn. Þær séu allt um kring. Hún minnist þess þegar dóttir hennar byrjaði á leikskóla og var eina barnið sem kom ekki frá íslenskri fjölskyldu.

Þá hafði leikskólastjórinn samband við barnaverndarnefnd vegna þess að Wiktoria var ekki að tala íslensku við dóttur sína heima. Leikskólastjórinn stakk jafnvel upp á því að senda dótturina til íslenskrar fjölskyldu um helgar.

„Ég fór á fund með barnaverndarnefnd og sagðist ekki ætla að tala íslensku við barnið mitt því það væri ekki mitt móðurmál. Leikskólinn er með barnið mitt átta klukkustundir á dag. Það er þeirra að kenna henni íslensku.“

Taka má fram að þetta viðtal fór alfarið fram á íslensku.

Met í að týna gögnum

Wiktoria er ekki heldur ánægð með samskiptin við Útlendingastofnun sem hún telur setja met í að týna gögnum. Hún kveðst hafa yfirfarið þrisvar með manninum sínum, sem er íslenskur, hvort öll gögn væru til staðar og sent þau á Útlendingastofnun til þess að sækja um íslenskan ríkisborgararétt í gegnum Alþingi fyrir sig og dóttur sína.

Hún hafi hringt til að ganga úr skugga um að öll gögn hafi skilað sér en svo fengið þær upplýsingar frá Alþingi að hún fengi ekki ríkisborgararétt því það vantaði gögn.

Hringdi hún þá aftur í Útlendingastofnun, sem hún segir hafa vikið sér undan því að svara hvort staðfesting á gögnunum hefði skilað sér til Alþingis og tjáð henni bara endurtekið að hún væri á lista og Alþingi myndi taka ákvörðun í vikunni. Það var ekki gert og hún er ekki enn komin með ríkisborgararétt.

Wiktoria er ekki sátt við Útlendingastofnun.
Wiktoria er ekki sátt við Útlendingastofnun. mbl.is/Hari

„Spark í bakið og það er sárt“

„Við erum sextíu þúsund manns sem erum sett til hliðar í samfélaginu og heyrist ekkert í. Við erum ekki bara glæpamenn eða hælisleitendur. Hér er svo margt fólk frá öllum heimshornum sem elskar Ísland, vill vera hér og verða hluti af samfélaginu. Eina sem við fáum er spark í bakið og það er sárt.“

Hún bendir á að það kosti meira að hræðast hið óþekkta en að vera opin fyrir því. Íslendingar eigi að fagna því að fá fleira fólk inn í kerfið til að vinna og borga skatta ásamt því að bæta við menninguna.

Hún segist aftur á móti sjálf vera komin með nóg og telur líklegt að fjölskyldan muni flytja til Kraká á næsta ári.

„Ég vil bara veita börnunum mínum það besta og ég veit til að mynda að skólakerfið á Íslandi er ekki mjög gott. Það er betra fyrir manninn minn að vera útlendingur í Kraká en fyrir mig að vera útlendingur á Íslandi, allt annað andrúmsloft.“

mbl.is

Bloggað um fréttina