Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg að fyllast

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins. mbl.is/Sigurður Bogi

Covid-19 smitum fer nú fjölgandi á ný hér á landi en 12 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, þar af voru sjö utan sóttkvíar. Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnarhúsa segir farsóttarhúsið við Rauðarárstíg vera að fyllast.

„Það er þéttsetinn bekkurinn eins og sagt er. Við erum með 63 gesti núna. Þar af eru 37 í einangrun,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.

Æ fleiri þurfa að sæta einangrun

Bæði Íslendingar og ferðamenn dvelja á sóttvarnarhúsinu og eru flestir þeirra fullbólusettir að sögn Gylfa.

„Það eru 11 Íslendingar hjá okkur. Restin eru ferðamenn. Það eru þá einstaklingar sem hafa verið bólusettir og hafa ekki þurft að sýna fram á neikvætt PCR-próf við komuna til landsins og greinast þar af leiðandi þegar þeir eru að fara héðan aftur.

Aðspurður segir Gylfi gestum fara fjölgandi í sóttvarnarhúsinu og að æ fleiri þurfi að fara í einangrun. 

„Það eru tveir komnir til okkar í dag og eigum allt eins von á fleirum. Við erum núna með tvær einangrunarhæðir í gangi sem vanalega er bara ein. Við erum nánast full, þannig séð. Við eigum einhver 4-5 einangrunar herbergi eftir og eitthvað annað eins fyrir sóttkví sem er fyrir það fólk sem hefur verið útsett fyrir smiti.

Þegar þau herbergi fyllast munum við senda það fólk sem hefur orðið útsett á Fosshótel Reykjavík. Þar eru um 130 gestir núna. Þá myndum við nota eina eða tvær hæðir þar undir fólk sem hefur orðið útsett. Ef einhver greinist jákvæður á Fosshótel RVK þá er sá aðili sendur hingað á Fosshótel Lind,“ segir hann.

Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg.
Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Nýjum afbrigðum fylgja ný einkenni

Þá sé stór hluti þeirra einstaklinga sem eru í einangrun með talsverð einkenni þrátt fyrir að vera bólusettir. 

„Við erum að sjá þessi klassísku einkenni. Mikinn höfuðverk, hálssærindi og öndunarörðugleika. Þetta er svona sitt lítið af hverju. Sem betur fer eru ekki allir sem finna fyrir einkennum en það eru þó nokkrir sem finna fyrir töluverðum einkennum.

Flestir sem dvelja á farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg eru með Delta-afbrigðið og því fylgi hvimleið einkenni á borð við niðurgang sem lítið hefur verið um fram að þessu að sögn Gylfa,

„Það er meira um það núna að fólk fái niðurgang. Það virðist vera sem hvert afbrigði hafi eitthvað aukalega sem við sjáum meira af og niðurgangur virðist fylgja Delta-afbrigðinu frekar. Miðað við það sem við sjáum núna allavega. Svo er þetta svo fljótt að breytast.

Upphaflega var þetta mikið bara slappleiki og lystarleysi, svo fer að bætast við það höfuðverkir, svo koma hálsbólgur og nú er kominn niðurgangur líka þannig það er alltaf einhver extra faktor sem bætist við í hvert sinn,“ segir hann.

Vill herða aðgerðir á landamærunum

Inntur eftir viðbrögðum við því að mögulega verði farið í að herða aðgerðir á landamærunum virðist Gylfi vera á sömu skoðun og sóttvarnarlæknir.

„Mín skoðun er sú að fólk eigi að sýna fram á PCR-próf áður en það kemur til landsins. Próf sem það tæki þá bara í sínu heimalandi.

Ég er sannfærður um það að fólk sem vill koma hingað til lands á annað borð það er að koma hingað út af náttúrufegurð og öðru en ekki vegna þess að sleppur við að fara í PCR-próf hér. Við erum eitt af fáum löndum í heiminum sem hefur ekki farið fram á að fólk sýni fram á neikvætt PCR-próf þó það sé bólusett. Ég held það myndi hjálpa okkur mikið og myndi ekki bitna illa á ferðaþjónustunni, síður en svo.“

mbl.is